Frumgreining á við um fyrstu formlegu athuganir sem gerðar eru eftir að grunur vaknar um frávik í þroska, hegðun eða líðan barns og fer oftast fram á 1. þjónustustigi eða hjá sérfræðingum á stofu.
Fyrsti grunur um frávik getur komið fram í skoðunum í ung- og smábarnavernd heilsugæslu. Ef áhyggjur vakna hjá foreldrum ættu þeir fyrst að leita til heilsugæslu, en hafi kennarar áhyggjur leita þeir til skólaþjónustu síns skóla, eftir samráð við foreldra og samstarfsfólk.
Tilgangur frumgreiningar er að kortleggja stöðu og meta þörf á íhlutun og nánari greiningu. Því fyrr sem frávik greinast og íhlutun hefst, því meiri líkur eru á góðum árangri. Vitneskja um hver vandi barns er eykur skilning á þörfum þess, spáir fyrir um framtíðarhorfur og leiðbeinir um hvers konar úrræði gagnist best.
Í framhaldinu er ráðlagt um úrræði í samræmi við niðurstöður t.d. stuðning eða sérkennslu í skóla, meðferð eða sértæka færniþjálfun fyrir barn og/eða ráðgjöf og fræðslu fyrir foreldra.