Á leiðbeinendanámskeiðinu er kynnt innihald og framkvæmd foreldranámskeiðsins Uppeldi barna með ADHD í þeim tilgangi að gera þátttakendur færa um að halda sjálfir slík námskeið.
Námskeiðið um uppeldi barna með ADHD er ætlað foreldrum 5–12 ára barna sem hafa hamlandi einkenni ADHD en ekki margar eða flóknar fylgiraskanir. Á námskeiðinu læra foreldrar um áhrif ADHD á tilveru barna og þeim eru kenndar uppeldisaðferðir sem henta þessum börnum. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu barnsins, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan algengan vanda. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma. Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð barna með ADHD mæla með slíkri hópfærniþjálfun foreldra sem fyrsta meðferðarúrræðis fyrir börnin.