Uppeldi barna með ADHD - Leiðbeinendanámskeið

Á leiðbeinendanámskeiðinu er kynnt innihald og framkvæmd foreldranámskeiðsins Uppeldi barna með ADHD í þeim tilgangi að gera þátttakendur færa um að halda sjálfir slík námskeið.

 

Námskeiðið um uppeldi barna með ADHD er ætlað foreldrum 5–12 ára barna sem hafa hamlandi einkenni ADHD en ekki margar eða flóknar fylgiraskanir. Á námskeiðinu læra foreldrar um áhrif ADHD á tilveru barna og þeim eru kenndar uppeldisaðferðir sem henta þessum börnum. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu barnsins, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan algengan vanda. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma. Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð barna með ADHD mæla með slíkri hópfærniþjálfun foreldra sem fyrsta meðferðarúrræðis fyrir börnin.

Hagnýtar upplýsingar um leiðbeinendanámskeiðið

Leiðbeinendanámskeiðið er fyrir sálfræðinga og annað fagfólk með sambærilega háskólamenntun sem hefur hug á að leiða ADHD foreldranámskeið. Þekking á ADHD og skyldum röskunum er æskileg svo og reynsla af vinnu með börn með ADHD og foreldra þeirra.

  • Tímasetning næsta námskeiðs hefur ekki verið ákveðin.
  • Námskeiðið er haldið á Geðheilsumiðstöð barna, Vegmúla 3, 108 Reykjavík
  • Námskeiðsgjald er 28.000 kr. árið 2017 Öll gögn og kaffiveitingar eru innifalin.
  • Nánari upplýsingar fást með því að senda fyrirspurn á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is.

Almennt um foreldranámskeiðið

Hvert foreldranámskeið er 6 skipti, 2 klst. í senn og nær yfir sjö vikur. Í hverjum tíma veita leiðbeinendur fræðslu um ákveðin grundvallaratriði og rík áhersla er lögð á umræður, hópverkefni og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Milli tíma vinna þeir heimaverkefni sem rædd eru í næsta skipti og ráðgjöf er gefin um framhaldið.

  • Lesa meira um foreldranámskeiðið Uppeldi barna með ADHD

Þróun námskeiðsins

Foreldranámskeiðið sem byggir á kenningum og aðferðum hugrænnar og atferlislegrar sálfræði hefur verið haldið reglulega á Geðheilsumiðstöð barna frá árinu 2006.

Í gegn um árin hefur efnið verið þróað og uppfært í samræmi við nýjustu gagnreyndu þekkingu og klínískar leiðbeiningar. Rannsókn gerð á Þroska- og hegðunarstöð og birt í Journal of Attention Disorders í sýndi jákvæðan árangur námskeiðsins.