Heimilislæknirinn er til staðar fyrir þig

Þegar þú þarft að hitta lækni eru nokkrar leiðir

Bókaðir tímar

Heimilislæknar á heilsugæslustöðvum eru með bókaða viðtalstíma frá kl. 8 - 16 og er hver tími 20 mínútur.

Þú bókar tíma í gegnum mínar síður á Heilsuveru eða með því að hringja á stöðina þína.

Nokkur bið getur verið eftir bókuðum tíma og ef erindið þolir ekki bið bendum við á síðdegismóttöku, samdægurstíma og skyndimóttöku en þá er ekki tryggt að þú hittir þinn heimilislækni.

Síðdegismóttaka

Heimilislæknar eru með síðdegismóttöku frá kl. 16 til 17 fyrir skyndileg veikindi.

Þá er viðtalstíminn styttri og miðað við eitt vandamál í viðtali.

Allar stöðvarnar okkar eru með síðdegismóttöku mánudaga til fimmtudaga og flestar eru líka með síðdegismóttöku á föstudögum

Það er ekki símaþjónusta á heilsugæslustöðvum eftir kl.16.

Samdægurstímar

Á hverjum degi eru nokkrir samdægurstímar í boði á hverri stöð. Þú hringir á heilsugæslustöðina, og bókað er í tímana eftir að erindið hefur verið metið.

Skyndimóttaka

Á dagvinnutíma er opin skyndimóttaka þar sem hægt er að koma fyrirvaralaust.

Í áríðandi tilvikum er alltaf hægt að fá þjónustu á dagvinnutíma og ef heimilislæknirinn þinn er ekki við, sinnir annar læknir eða hjúkrunarfræðingur erindinu.

Þú færð nánari upplýsingar um fyrirkomulag læknisþjónustunnar á heilsugæslustöðinni þinni.

Stundum leysa símaviðtal eða rafræn samskipti vandann

Símaþjónusta

Heimilislæknar bjóða upp símaviðtöl. Þú hringir á stöðina og pantar símtal og venjulega hringir læknirinn samdægurs til baka.

Símaviðtöl eru fyrir einföld erindi, t.d. fyrirspurnir um niðurstöður rannsókna eða í framhaldi af viðtali til að ræða framvindu veikinda. Miðað er við eitt vandamál í símtali.

Upplýsingar um fyrirkomulag samtalspantana og hvaða daga þú getur talað við þinn heimilislækni eru á síðu heilsugæslustöðvarinnar þinnar

Rafræn samskipti

Mjög einfalt er að senda fyrirspurnir til fagfólks í heilsugæslu í gegnum örugg samskipti í Heilsuveru. Þessi samskipti eru skráð í sjúkraskrá.

Einn starfsmaður stöðvarinnar tekur á móti öllum skilaboðum sem berast í gegnum Heilsuveru og kemur þeim í réttar hendur. Þannig er tryggt að skilaboðum sé svarað þó viðkomandi starfsmaður sé ekki í vinnu.

Það hentar t.d. vel til að spyrja um niðurstöður rannsókna, tilvísanir, eða kanna með næstu skref í meðferð.

Heilsuverusamskiptum er svarað á dagvinnutíma, oftast samdægurs eða næsta dag.

Myndsamtal

Heilbrigðisstarfsmenn geta boðið einstaklingum upp á myndsamtöl ef aðstæður krefjast þess. Myndsamtalið fer fram í gegnum örugg samskipti á Mínum síðum á heilsuvera.is.

Ef heilbrigðisstarfsmaður sem þú ert í meðferð hjá hefur bókað þig í myndsamtal, þarft þú að kynna þér þessar leiðbeiningar áður en myndsamtalið fer fram:

Þessi þjónusta er á byrjunarstigi og ekki allir sem bjóða uppá möguleikann eins og er.

Hver fjölskylda hefur rétt á að leita til heimilislæknis með heilsufarsvandamál sín.

  • Heimilislæknirinn hefur yfirsýn yfir heilsufar þitt og fjölskyldu þinnar, veitir ykkur samfellda þjónustu og er tengiliður ykkar við heilbrigðisþjónustuna.
  • Heimilislæknirinn greinir og meðhöndlar heilsuvanda þinn og veitir þér markvissa ráðgjöf ef þörf er á frekari hjálp í heilbrigðiskerfinu, svo sem sérfræðiþjónustu.
  • Heimilislæknirinn gætir fyllsta trúnaðar og gagnkvæmt traust ríkir milli hans og þeirra sem hann sinnir.

Heimilislæknar eru sérfræðingar í heimilislækningum og hafa lokið 4-5 ára sérnámi líkt og aðrir sérfræðingar í læknastétt.

Á heilsugæslustöðvum starfa oft námslæknar, bæði læknar sem eru í sérnámi í heimilislækningum og læknar á svokölluðu kandídatsári. Þeir læknar vinna undir handleiðslu sérfræðinga á stöðinni og eru ekki með skráða skjólstæðinga.

Þú getur valið þér heilsugæslustöð og þegar þú skráir þig á heilsugæslustöð færðu ákveðinn heimilislækni. 

Hver heimilislæknir hefur hámarksfjölda skjólstæðinga, þannig að oft geta heimilislæknar ekki bætt við sig fleiri. Þú getur því bara valið milli lækna á stöðinni sem eru ekki fullbókaðir.

Það kemur fyrir að allir læknar stöðvarinnar sem þú skráir þig á eru fullbókaðir og þá ertu bara skráður á stöðina sjálfa og allir læknar stöðvarinnar sinna þér. Þegar pláss hjá heimilislækni losnar er þér boðið það. Oft ganga barnafjölskyldur og einstaklingar með langvinna sjúkdóma fyrir.

Ef heimilislæknirinn þinn hættir störfum á stöðinni, færðu annan lækni á stöðinni eða bíður eftir að pláss losni. Ef heimilislæknir flytur sig yfir á aðra heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu er stundum er möguleiki að fylgja honum þangað.

Ef þú vilt skipta um heimilislækni af einhverjum ástæðum getur þú kannað hvort einhver annar sé laus á stöðinni, beðið eftir næsta lækni eða flutt þig á aðra stöð.

Þú getur séð í Réttindagátt sjúkratrygginga og í Heilsuveru hvaða stöð þú ert skráður á og hver er heimilislæknirinn. Í Réttindagátt getur þú skráð þig á stöð en skráning á lækni fer bara fram á heilsugæslustöðinni.

Ef þú ert ekki með heimilislækni er það oft vegna þess að það er engin laus læknir á þinni stöð. Þú færð samt alla læknisþjónustu á stöðinni eins og þeir sem eru með heimilislækni. Munurinn er að fleiri læknar sinna þér.

Þú getur alltaf leitað til næstu heilsugæslustöðvar til að fá læknishjálp, hvort sem þú ert skráður á stöðina eða ekki. Mælst er til að þú skráir þig ef þú ætlar að halda áfram að leita til stöðvarinnar.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?