Við stuðlum að heilbrigði móður og barns

Ljósmóðir fyrir þig

Mæðravernd er ókeypis og verðandi mæður geta annað hvort farið á sína heilsugæslustöð eða valið aðra stöð og skráð sig á hana

Viðtöl og skoðanir eru í boði frá upphafi meðgöngu og fram að fæðingu. Fyrsta viðtal við ljósmóður er gjarnan í síma fljótlega eftir að þungun er staðfest. Þá er gefinn tími í fyrstu skoðun og veittar upplýsingar sem gott er að fá í upphafi meðgöngu.

Fjöldi mæðraskoðana fer svo eftir aðstæðum, oftast 7-10 skipti. Milli skoðana er hægt að fá símaráðgjöf hjá ljósmóður.

Mæðravernd er í höndum ljósmæðra í samvinnu við heimilislækna á heilsugæslustöðvum og fæðingalækna heilsugæslunnar ef þörf er á. 

Upplýsingar um fyrirkomulag mæðraverndar, símaþjónustu o.fl., á þinni stöð er á síðum heilsugæslustöðvanna  í flipanum Heilsuverndin

Traustur grunnur

Markmið með mæðravernd heilsugæslunnar er:

  • að stuðla að heilbrigði móður og barns.
  • að veita faglega umönnun, stuðning og ráðgjöf.
  • að greina áhættuþætti og bregðast við þeim.
  • að veita fræðslu um meðgöngu og fæðingu.

Námskeið

Við bjóðum upp á námskeiðin:

Skoðanir í mæðravernd

Þegar þungun er staðfest er gott að hafa samband við heilsugæslustöð og óska eftir símtali við ljósmóður. Í símtalinu eru veittar upplýsingar sem gott er fá í upphafi meðgöngu og oftast er bókaður tími í fyrstu skoðun. Mælt er með að fyrsta koma sé fyrir 12  vikna meðgöngu. 

Í fyrstu komu eru skráðar almennar upplýsingar um heilsufar ásamt fyrri meðgöngu- og fæðingarsögu ef við á. Búast má við að fyrsta koma í mæðravernd geti tekið allt að eina klukkustund.

Gert er ráð fyrir að fjöldi skoðana sé 10 hjá konu sem gengur með sitt fyrsta barn og 7 hjá konum sem hafa fætt áður. Fjöldi skoðana á meðgöngu getur þó verið mismunandi og fer það eftir þörfum konu og mati ljósmóður hverju sinni. Hver koma í mæðravernd getur tekið 20-30 mínútur. 

Í hverri komu er rætt um almenna líðan og heilsufar. Blóðþrýstingur er mældur og athugað er hvort prótein er í þvagi. Hlustað er eftir hjartslætti fóstursins frá 16 vikna skoðun og frá 25 vikna skoðun er stærð legsins mæld, frá lífbeini að legbotni. Við 36. viku er lega barnsins metin. Veitt er fræðsla og ráðgjöf eins og við á hverju sinni og út frá þörfum verðandi móður/foreldra.

Í meðgönguverndinni gefst tækifæri til umræðna og spurninga t.d. um líðan, mataræði, hreyfingu, skimanir á meðgöngu, fósturrannsóknir, þjónustu sem er í boði á meðgöngu, val á fæðingarstað, fæðinguna, bjargráð í fæðingu, fæðingarorlof, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira.   

Boðið er upp á fjölda skimana í mæðraverndinni. Tilgangur þessara skimana er að l kanna þætti sem geta haft áhrif á heilsufar móður og barns á meðgöngunni. Meðal annars er boðið upp á skimun  fyrir rauðkornamótefnum, blóðleysi, lifrarbólgu B og C, HIV, rauðum  hundum og sárasótt. 

Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir í samstarfi við fósturgreiningardeild Landspítala.

Hvert skal leita ef upp koma verkir eða vandamál á meðgöngu?

Það er eðlilegt að foreldrar hafi spurningar á meðgöngu og það er víða hægt að fá svör við þeim. 

Heilsuvera.is

Á heilsuveru er þjónusta hjúkrunarfræðinga frá 8 til 22 alla daga bæði í netspjalli og síma 513-1700. Á heilsuveru er einnig í boði að ræða við ljósmóður frá kl. 10 til 12 alla virka daga..

Á vefnum heilsuvera.is eru upplýsingar um meðgöngu, þær breytingar sem verða á meðgöngu, líðan og fylgikvilla meðgöngunnar. Þar má finna svör við ýmsum vangaveltum og áhyggjum vegna meðgöngunnar.

Heilsugæslustöðin þín

Á hverri heilsugæslustöð eru ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og læknar sem veita símaráðgjöf alla virka daga frá kl. 8:00 – 16:00. Það er einnig hægt að senda fyrirspurn til ljósmæðra og lækna á heilsugæslustöðinni í gegnum Mínar síður á Heilsuveru.is.

Bráðaþjónusta er veitt allan sólarhringinn á kvennadeild Landspítala - sími 543-1000 

Hægt er að hafa samband við bráðaþjónustu kvennadeilda allan sólarhringinn ef blæðir frá leggöngum, ef grunur er um legvatnsleka eða byrjandi fæðingu. Frá 28. viku meðgöngu er hægt að hafa samband vegna minnkaðra fósturhreyfinga. 

112 Neyðarlínan

Alltaf skal hafa samband beint við Neyðarlínuna ef um bráðatilvik, slys og miklar blæðingar er að ræða.
 

Fæðingin

Á Landspítala er ein fæðingardeild, fæðingarvaktin sem sinnir öllum fæðandi konum frá 22 vikna meðgöngu. Þar er lögð áhersla á að stuðla að eðlilegum fæðingum. Fæðingarvaktin sinnir einnig þeim konum sem þurfa sérhæfða umönnun í fæðingu.

Á vef Landspítalans www.landspitali.is eru myndbönd sem kynna fæðingarþjónustuna og sýna fæðingarvaktina og meðgöngu- og sængurlegudeild spítalans.

Ljósmóðir í meðgönguverndinni  getur gefið upplýsingar um aðra kosti við val á fæðingarstað og konur sem íhuga að fæða heima geta fengið frekari upplýsingar hjá sinni ljósmóður í meðgönguvernd.

Ung- og smábarnaverndin

Þegar heimaþjónustu ljósmæðra lýkur eða þegar heim er komið eftir lengri sængurlegu tekur þjónusta ung-og smábarnaverndar við. Hún byrjar á vitjun heim til fjölskyldunnar. 

Þjónustan er hverfaskipt og leita foreldrar til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þjónar þeirra hverfi. Gott er að láta ungbarnaverndina á heilsugæslustöðinni þinni vita þegar fjölskyldan er komin heim.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?