Einfaldar leiðir að þjónustu

Lyf

Lyfjaávísanir

Viðtal við lækni er alltaf fyrsta skrefið í ávísun lyfja.

Í viðtali fer fram greining á vanda og, í samráði við skjólstæðing, tekin ákvörðun um lyfjameðferð, með hugsanlegar aukaverkanir og milliverkanir í huga.

Í viðtalinu er hægt að fá fjölnota lyfseðil eða ganga frá lyfjaskömmtun ef um langtímalyfjanotkun er að ræða.

Lyfjaendurnýjun

Ef nota þarf aðrar leiðir er þægilegast að óska eftir lyfjaendurnýjun í gegnum Heilsuveru. Þá þarft þú að hafa rafræn skilríki.

Á mínum síðum Heilsuveru er yfirlit yfir þau lyf sem þú og þín börn hafa fengið ávísað síðustu þrjú ár og hvort búið sé að nota ávísunina.

Einnig er hægt endurnýja í lyfjasíma heilsugæslustöðvanna.

Fyrirkomulag lyfjasíma er kynnt á síðu heilsugæslustöðvarinnar þinnar. Annað hvort er ákveðið númer sem er opið í nokkra tíma á dag eða símsvari sem þú hringir í og skilur eftir skilaboð.

Hvaða lyf er hægt er að endurnýja

Þú getur óskað eftir að endurnýja lyf sem þú tekur að staðaldri og þinn heimilislæknir eða annar læknir á stöðinni hefur ávísað.

Sýklalyf, sterk verkjalyf, róandi lyf eða svefnlyf eru bara endurnýjuð í viðtali en lyfjaskömmtun getur verið góður kostur fyrir þessi lyf.

Fjölnota lyfseðlar

Til að spara tíma og fyrirhöfn er lögð áhersla á notkun fjölnota lyfseðla fyrir lyf sem notuð eru að staðaldri. Slíkir lyfseðlar geta dugað í allt að eitt ár.

Til að fá fjölnota lyfseðil þarf að koma í viðtal til læknis.

Vottorð

Veikindavottorð

Heimilislæknar gefa út veikindavottorð vegna fjarvista úr skóla eða vinnu. 

Hafðu samband við heilsugæslustöðina þína í síma eða í gegnum mínar síður Heilsuveru.

Mælst er til að skólar óski ekki eftir að nemendur komi með veikindavottorð nema í sérstökum tilvikum til að draga úr óþarfa fyrirhöfn og kostnaði fyrir fjölskyldur og heilsugæsluna.

Önnur vottorð

Einnig gera læknar ýmis önnur vottorð, t.d. vegna skólavistar og leyfisbréfa. Alltaf þarf að panta tíma og reikna með því að gerð vottorðsins taki nokkra daga.

Í Gjaldskrá færð þú upplýsingar um verð vottorða.

Rannsóknir

Ýmsar rannsóknir og próf eru gerð á heilsugæslustöðvum.

Þar má nefna: hjartalínurit, öndunarmælingar, streptókokkapróf, þungunarpróf, leghálsstrok, einfaldar blóð og þvagrannsóknir, kynsjúkdómapróf og skyndipróf varðandi fíkniefni.

Blóðsýni eru oftast tekin á morgnana en tímasetning er nánar kynnt á síðu stöðvarinnar þinnar. Venjulega þarf að bóka tíma í blóðtöku og alltaf þarf beiðni frá starfsmanni að liggja fyrir. Athugið hvort nauðsynlegt sé að vera fastandi fyrir blóðtöku.

Þvagsýni þurfa oftast að berast fyrir kl. 9:30. Best er að koma með fyrsta morgunþvag (miðbunuþvag) nema annað hafi verið tekið fram. 

Tilvísanir

Heimilislæknar gera tilvísanir til annarra sérfræðilækna ef þarf. 

Bóka þarf tíma hjá heimilislækni vegna tilvísana.

Börn sem eru með tilvísun frá heimilislækni borga ekki fyrir þjónustu sérfræðinga sem þeim er vísað til. Tilvísanir gilda oftast í ár en hægt er að láta þær gilda lengur ef um langvinnan vanda er að ræða.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?