Stefna HH

Stefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er:

  • að vera fyrsta val þeirra sem þurfa á almennri heilbrigðisþjónustu að halda
  • að vera framsækinn og ábyrgur aðili í íslenskri heilbrigðisþjónustu
  • að hafa jákvæð áhrif á líf almennings
  • að vera talinn eftirsóknarverður vinnustaður

Nánari útfærslu meginstefnu má sjá í starfsmannastefnu, jafnréttis- og mannréttindastefnu, jafnlaunastefnu, upplýsingaöryggisstefnu og samgöngustefnu hér fyrir neðan.

Starfsmannastefna 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) stefnir að því að veita starfsmönnum sínum hvetjandi, eftirsóknarvert og áhugavert starfsumhverfi þar sem frumkvæði og sjálfstæði þeirra í starfi fær að njóta sín.

Til að ná markmiðum sínum hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sett fram eftirfarandi starfsmannastefnu:

  • að hafa ávallt á að skipa hæfasta starfsfólki sem völ er á til að tryggja gæði þjónustunnar.
  • að bjóða nýjum  starfsmönnum upp á  góða faglega þjálfun og aðlögun í starfi.
  • að hverjum starfsmanni sé ljóst hvert sé verksvið hans og ábyrgð samkvæmt starfslýsingum.
  • að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir jafn verðmæt eða sambærileg störf án tillits til kyns, samanber jafnlaunastefnu HH.
  • að greina fræðsluþarfir starfsmanna og bjóða upp á öfluga fagþjálfun og símenntun.
  • að stuðla að góðum starfsanda meðal starfsmanna og að þeir sýni hverjir öðrum fyllstu tillitssemi og virðingu í öllum samskiptum.
  • að leggja kapp á markvissa upplýsingagjöf til starfsmanna í gegnum tölvupóst, innri miðla og með skilvirkum starfsmannafundum.
  • að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma ábyrgð starfs- og fjölskyldu eins og kostur er.
  • að mismuna ekki starfsmönnum á nokkurn hátt á grundvelli kynferðis, aldurs, trúarbragða, þjóðernis, stjórnmálaskoðana, kynhneigðar eða annarra persónubundinna þátta.
  • að stuðla að heilsueflingu meðal starfsmanna og tryggja öryggi og góða hollustuhætti á vinnustaðnum.

Samþykkt af framkvæmdastjórn HH 26. janúar 2021

Jafnréttis- og mannréttindastefna

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) starfar eftir ákvæðum laga nr.150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Jafnréttis- og mannréttindastefnan HH miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis , kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

 Stefnan lýsir áherslum HH í jafnréttis- og mannréttindamálum og nær til allrar starfsemi stofnunarinnar. 

Jafnréttis- og mannréttindastefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) 2021-2024

 

Jafnlaunastefna HH

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) starfar í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði.  HH fylgir öllum viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma.

Jafnlaunastefnan er samkvæmt kröfum ÍST 85:2012 og nær til heildarstarfsemi stofnunar og allra starfsmanna. Stefnan er stjórntæki til að ná fram markmiðum HH í jafnréttismálum og miðar að því að stofnunin sé góður og eftirsóknarverður vinnustaður þar sem allir starfsmenn hafa jöfn tækifæri í starfi óháð kyni.

Kjarni jafnlaunastefnunnar er:

Allir starfsmenn skulu njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt eða sambærileg störf óháð kyni

Það er stefna HH að allir starfsmenn njóti sömu kjara og réttinda fyrir sambærileg  eða jafn verðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá stofnuninni. Ennfremur að starfsmenn sem starfa hjá stofnuninni hafi jafna stöðu, njóti sömu réttinda og standi sömu tækifæri til boða á öllum sviðum starfseminnar óháð kyni. Er það vilji stjórnenda að með því að stuðla að jöfnum tækifærum einstaklinga verði mannauður stofnunarinnar sem öflugastur. 

Til þess að framfylgja jafnlaunastefnu sinni skuldbindur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sig til að skjalfesta og innleiða jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur staðalsins, ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar og tryggja eftirfylgni og stöðugar umbætur á jafnlaunakerfinu. 

HH skuldbindur sig til eftirfarandi aðgerða: 

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og öðlast vottun í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  • Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman sambærileg eða jafn verðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun kynja með stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Árleg innri úttekt og rýni stjórnenda.
  • Kynna starfsmönnun stefnuna og birta á innri miðlum og ytri vef. 

Framkvæmdastjóri  mannauðs og nýliðunar ber ábyrgð á skjalfestingu, innleiðingu og framkvæmd stefnunnar ásamt því að sjá til þess að stefnunni sé viðhaldið með árlegri endurskoðun. Framkvæmdastjórn skal tryggja að kröfum laga sem og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé mætt.

Samþykkt af framkvæmdastjórn HH 26. janúar 2021

Þetta skjal inniheldur upplýsingaöryggisstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem er hluti af skjalfestu stjórnkerfi upplýsingaöryggis HH (ISMS). Upplýsingaöryggisstefnan er samþykkt af forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis en framfylgni hennar er á ábyrgð allra starfsmanna. Í skjalfestu stjórnkerfi upplýsingaöryggis HH er nánari skilgreining á umfangi og aðferðafræði stjórnkerfisins, þ.m.t. tilvísun til skjala og handbóka sem styðja upplýsingaöryggisstefnu HH, auk yfirlits yfir skiptingu ábyrgðar eftir einstökum verklagsreglum sem HH notar og yfirlýsingu yfir markmið og leiðir.

Upplýsingaöryggisstefna HH

Það er ásetningur forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að mikilvægar upplýsingar og upplýsingakerfi HH og viðskiptavina þess verði varin og öryggi tryggt á viðeigandi hátt, í samræmi við verðmæti þeirra og þær ógnanir og varnarleysi sem til staðar eru hverju sinni.

Öryggið felst í leynd, réttleika og tiltækileika.

  • Leynd - Upplýsingar eru aðeins aðgengilegar þeim sem hafa aðgangsheimild.
  • Réttleika - Gæði upplýsinga eru tryggð, gögn eru rétt og ekkert vantar.
  • Tiltækileiki - Gott aðgengi að gögnum er tryggt fyrir þá sem hafa til þess réttindi.

Mikilvægi upplýsingaöryggis fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ótvírætt enda byggir starfsemin á að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins samfellda og alhliða heilsugæsluþjónustu. Markmiðið með upplýsingaöryggisstefnu er því að koma á stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem hindrar óleyfilegan aðgang, yfirfærslur, breytingar, skemmdir (viljandi eða óviljandi) og stuld á upplýsingum eða búnaði.

Upplýsingaöryggisstefnan er byggð á alþjóðlega öryggisstaðlinum ÍST ISO/IEC 27001:2005 (Information technology - Security techniques - Information Security Management System – Requirements).

Upplýsingaöryggisstefnunni er ætlað að tryggja að farið sé að lögum, þ.m.t. lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Umfang

Upplýsingaöryggisstefnan nær til innri starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auk allrar vinnslu og þjónustu sem Heilsugæslan veitir viðskiptavinum sínum í þeim tilvikum þar sem HH ber fulla ábyrgð og starfsemin, vinnslan og þjónustan fer fram í húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  

Ábyrgð

Öryggisstjóri upplýsingamála Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur það hlutverk að annast framkvæmd og viðhald stjórnkerfis upplýsingaöryggis HH. Hann sér einnig til þess að farið sé að settum reglum og stöðlum sem styðja upplýsingaöryggisstefnuna og tryggir að starfsfólk hljóti viðeigandi fræðslu.

Nefnd upplýsingaöryggismála Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt öryggisstjóra sér um heildaráætlun og samhæfni öryggisverkefna hjá HH.

Allir starfsmenn eru ábyrgir fyrir því að fara eftir upplýsingaöryggisstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og öðrum þeim skjölum og handbókum sem styðja stefnuna og eru hluti af stjórnkerfi upplýsingaöryggis hjá HH. Öll öryggisbrot og/eða –veikleika ber að tilkynna til öryggisstjóra sem gætir nafnleyndar þeirra sem tilkynna brot/veikleika sé þess óskað.

Samstarfsaðilar, verktakar og birgjar bera ábyrgð á að fylgt sé samningsbundnum vinnuferlum sem eiga að tryggja framkvæmd stefnunnar.

Öryggisbrot

Áhersla er lögð á að fylgja settum verklagsreglum og vinnulýsingum. Hvers konar brot á öryggisreglum verða tekin alvarlega. Öll brot verða rannsökuð sérstaklega og geta haft í för með sér refsingar og/eða málaferli.

Dreifing, endurskoðun og útgáfa

Öryggisstefnan skal endurskoðuð reglulega og vera aðgengileg fyrir alla starfsmenn og samstarfsaðila eftir því sem við á.

 

Samþykkt af forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 7. maí 2008.

Endurskoðað 15. september 2015.

Svanhvít Jakobsdóttir

Samgöngustefna

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins stefnir að því að draga úr neikvæðum áhrifum samgangna á umhverfið vegna starfsemi sinnar.

Sem heilbrigðisstofnun stefnir Heilsugæslan að:

Minni mengun

Með því að draga úr mengun vegna samgangna vill Heilsugæslan stuðla að betra umhverfi. Þar er horft til mengunar eins og losunar gróðurhúsalofttegunda, svifryks, sóts og hljóðmengunar, sem öll hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks.

Betri heilsu starfsfólks Heilsugæslunnar

Heilsufarslegur ávinningur af því að ganga eða hjóla reglulega til og frá vinnu er óumdeildur. Með því að bæta aðstæður fyrir þá sem vilja komast til og frá heilsugæslunni/heilsugæslustöðvum með öðrum hætti en á einkabílum er stuðlað að jafnræði við val á ferðamáta og breyttum ferðavenjum starfsfólks sem hefur jákvæð áhrif á heilsu starfsfólks.

Öruggara og líflegra umhverfi

Með því að draga úr akstri bíla við heilsugæsluna/heilsugæslustöðvar og með fjölgun þeirra sem koma gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum minnkar þörf fyrir bílastæði og götur. Það hefur einnig í för með sér að fleiri verða á ferli. Færri bílar og fleiri á ferli eykur öryggi. Þannig stuðlar heilsugæslan að öruggara og líflegra umhverfi.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?