Við hugsum um skólabörnin

Heilsuvernd skólabarna tekur við þegar ung- og smábarnavernd lýkur

Hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum sjá um heilsuvernd skólabarna í hverfi stöðvanna.

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru:

 • Fræðsla og heilsuefling
 • Bólusetningar
 • Skimanir 
 • Viðtöl um heilsu og líðan
 • Umsjón og eftirlit með umönnun langveikra barna innan skólans
 • Ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans

Samvinna

Markmið heilsuverndar skólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra.

Heilsuvernd skólabarna styðst við: 

Skólahjúkrunarfræðingar vinna í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. 

Fræðsla og heilsuefling

Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum árgöngum og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar.

Áherslur fræðslunnar eru:

 • Hamingja
 • Hollusta
 • Hreinlæti
 • Hreyfing
 • Hugrekki
 • Hvíld
 • Kynheilbrigði.

Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um innihald fræðslunnar. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Bólusetningar

Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og draga úr hættu á smiti í samfélaginu.

Sjúkdómar, sem Embætti landlæknis mælir með að öll börn á Íslandi séu bólusett gegn, geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

Eftirfarandi bólusetningar fara fram í heilsuvernd skólabarna og eru samkvæmt tilmælum Embættis landlæknis:

7. bekkur:

 • Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta).
 • HPV (tvær sprautur gefnar með a.m.k. sex mánaða millibili).

9. bekkur:

 • Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).
  .

Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra um tímasetningu. Mikilvægt er að börn komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning á að fara fram.

Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Afþakki foreldrar bólusetningar fyrir börn sín þurfa þeir að tilkynna það skriflega til heilsuverndar skólabarna og slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns.

Skimanir og skoðanir

Vöxtur barna

Að fylgjast með vexti barna gefur mikilvægar upplýsingar um heilsufar og næringarástand. Vaxtalínurit er einn besti mælikvarði sem völ er á til að fylgjast með almennu heilsufari og heilbrigði barna. Mikilvægt er að hæðar- og þyngdarmæla með reglulegu millibili til að geta metið frávik á vaxtarlínuriti.

Þar sem vöxtur og holdafar er oft viðkvæmt efni fyrir börn og unglinga er mikilvægt að eftirfylgd sé í samráði við foreldra og framkvæmd á nærgætin hátt.

Vöxtur barna er mældur í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Sjón

Sjóngæsla barna er mikilvægur þáttur í heilsuvernd. Sjóngallar eru nokkuð algengir meðal barna og unglinga og aukast með aldrinum. Ef ekki er gripið til viðeigandi úrræða hefur það áhrif á líðan og námshæfni nemandans.

Með sjónprófi í skóla er sjónskerpa (nærsýni) mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð. Sjónprófað er með HVOT töflu sem samsett er úr 4 bókstöfum, H-V-O-T.  Þekki börn ekki stafina er til spjald með sömu bókstöfum sem barnið bendir á.

Sjónpróf fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Viðtöl um heilsu og líðan

Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um heilsu og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Grunnupplýsingar úr viðtali um heilsu og líðan eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar

 

 

Veikindi og slys

Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp.

Ef nemandi þarf að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild fara foreldrar/forráðamenn með barninu. 

Langveik börn

Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingurinn viti af börnum sem eru með langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, svo sem sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma. 

Þessum börnum sinnir heilsuvernd skólabarna í samráði við foreldra/forráðamenn barnsins.

Þjónustan getur meðal annars falist í:

 • Umsjón og eftirlit með umönnun barna innan skólans þegar þess er þörf.
 • Vera tengiliður skólans við foreldra og meðferðaraðila þegar við á.
 • Taka þátt í heilsufarseftirliti nemenda þegar meðferð krefur.
 • Umsjón með lyfjagjöfum
 • Útskýra fyrir starfsfólki skóla meðferð, lyfjagjöf og fleira eftir þörfum með leyfi viðkomandi foreldra.
 • Fræða starfsfólk skólans, nemendur og foreldra um einstaka sjúkdóma og/eða fatlanir með leyfi viðkomandi foreldra.
 • Stuðningur við barn og fjölskyldu þess.
 • Stuðningur og ráðgjöf við starfsfólk skólans.

Skólarnir okkar

Þetta eru skólarnir sem heilsugæslustöðvarnar HH sjá um heilsuvernd skólabarna í. 

Hér má sjá hvaða heilsugæslustöð hver skóli tilheyrir og netföng skólahjúkrunarfræðinganna.

Hægt er að fá símasamband við skólahjúkrunarfræðingana í gegnum skiptiborð skólanna.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?