Vinnum með styrkleika barnanna

Námskeið fyrir foreldra um uppeldi barna með ADHD

Markhópur

Foreldrar barna sem eru þegar greind með ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) og barna þar sem skimun eða frumgreining hefur sýnt hamlandi ADHD einkenni. Athugið að efnið hentar helst vegna barna frá fimmta að ellefta aldursári (1. - 6. bekkur), sem ekki hafa alvarlegar eða fjölbreyttar fylgiraskanir. 

Markmið

Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá við að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með þessa og tengdar raskanir. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma.

Fyrirkomulag

Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist í 6 skipti, 2 klst. í senn. Í hverjum tíma veita leiðbeinendur fræðslu um ákveðin grundvallaratriði, studd af námskeiðsgögnum.

Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Í upphafi og við lok námskeiðs eru foreldrar beðnir að fylla út matslista. Milli tíma þarf að vinna heimaverkefni sem rædd eru í næsta skipti og ráðgjöf er gefin um framhaldið. Að auki býðst einstaklingsráðgjöf milli tíma ef þörf krefur.

Hver áfangi námskeiðsins byggir á því sem á undan er gengið og því mikilvægt að gera ráðstafanir til að geta sótt alla tímana. Mælt er með því að báðir foreldrar sæki námskeiðið.

Leiðbeinendur

Leiðbeinendur hverju sinni eru tveir fagaðilar sem eru sérfróðir um ADHD og skyldar raskanir og hafa staðgóða reynslu af vinnu með foreldrum og börnum. 

Yfirlit innihalds

Tími 1 - Einkenni og áhrif ADHD á hegðun barna og samspil þessa við umhverfið. Orsakir óhlýðni og þróun samskipta í fjölskyldum. Grunnatriði atferlismótunar.

Tími 2 - Uppeldisfærni og bjargráð foreldra, lykilatriði í uppeldi barna með ADHD, að veita æskilegri hegðun athygli og nota jákvæða athygli markvisst til kennslu.

Tími 3 - Daglegt skipulag, rammi, rútína og reglur. Að gefa skýr fyrirmæli og ýta undir hlýðni, góða hegðun, sjálfstæði og sjálfsaga.

Tími 4 - Kynning á mismunandi umbunarkerfum; notkun, fyrirkomulag og framkvæmd. Val markhegðunar og umbunar.

Tími 5 - Viðurlög við óæskilegri hegðun, mismunandi leiðir. Að taka á hegðun utan heimilis, sjá erfiðleika fyrir og skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð.

Tími 6 - Skipulag til framtíðar, hvað á að gera ef hegðun barns versnar, þarf einhverju að breyta í núverandi aðgerðum? Niðurstöður matslista, ráðgjöf, endurgjöf og útskrift.  

Námskeið 

Námskeiðið er haldið á vegum Geðheilsumiðstöðvar barna,Vegmúla 3, 108 Reykjavík. Nánari upplýsingar um skráningu á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is

Boðið er upp á stað- og fjarnámskeið.

Verð vegna námskeiðsgagna: 4000 kr. 

Umsjón

Þetta námskeið er haldið af Geðheilsumiðstöð barna