10. Um hljóðritun símtala

Almennt um hljóðritun símtala

Hljóðritun símtala hjá HH er afmörkuð við símtöl móttökuritara á heilsugæslustöðvum, símtöl starfsfólks í lyfjaendurnýjun, símtöl skrifstofustjóra heilsugæslustöðva auk símtala lækna og hjúkrunarfræðinga sem einnig starfa sem fag- og svæðisstjórar heilsugæslustöðva. 

Símkerfi heilsugæslunnar tilkynnir ávallt þegar símtal er hljóðritað. Þar sem ekki öll símtöl eru hljóðrituð er fólki sem hringir í aðalnúmer heilsugæslustöðva tilkynnt um að símtalið kunni að vera hljóðritað. Þegar símtalið flyst í símanúmer sem er hljóðritað er tilkynnt um að símtalið sé hljóðritað. Verði símtalið flutt í símanúmer sem ekki er hljóðritað er tilkynnt um að hljóðritun sé lokið. 

Tilgangur og heimildir fyrir hljóðritun 

Hljóðritun símtala fer fram í tvenns lags tilgangi, annars vegar að tryggja að fyrir liggi upplýsingar um málsatvik vegna kvartana eða krafna skjólstæðinga og hins vegar til að tryggja öryggi starfsfólks heilsugæslunnar.
Hljóðritun símtala er heimil þar sem hún er nauðsynleg annars vegar vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 og hins vegar vegna stjórnunar heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfis sbr. 8. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018

Varðveislutími hljóðritana, miðlun og öryggi persónupplýsinga

Hljóðrituð símtöl eru varðveitt í 90 daga og eyðast sjálfkrafa að þeim tíma loknum. 

Hljóðupptökum er einungis miðlað til lögreglu eða Embættis landlæknis, eftir atvikum með hliðsjón af 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Hljóðupptökum er einungis miðlað samkvæmt framansögðu ef upptakan er gagn í máli sem tilkynnt hefur verið til lögreglu eða landlæknis. 

Aðgangur að upptökum símtala er takmarkaður með aðgangsstýringum og skilgreindur með verklagsreglum. Skoðun hljóðritana og frekari vinnsla þeirra lýtur verklagsreglum og ferlum sem tryggja að vinnsla sé takmörkuð í samræmi við tilgang hljóðritana, ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga og reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. 

Annað

Um réttindi einstaklinga og önnur atriði vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er vísað til annarra kafla persónuverndarstefnu stofnunarinnar.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?