Fleiri algengar spurningar um bólusetningar

Mynd af frétt Fleiri algengar spurningar um bólusetningar
15.07.2021

Hér höldum við áfram að svara algengum spurningum um fyrirkomulag bólusetninga, vottorð og fleira. (Síðast uppfært 9. ágúst)

Vinsamlega leitið svara hér áður en þið hringið eða sendið tölvupóst. Netspjall á heilsuvera.is svarar spurningum um bólusetningar, sýnatökur og annað er varðar heilsu alla daga milli kl. 8:00 og 22.00.

Þessi frétt verður uppfærð eftir þörfum og við munum bæta við fleiri spurningum. Sjá einnig eldri frétt: Algengar spurningar um fyrirkomulag bólusetninga.

Efst á baugi

Hvernig er skipulagið næstu vikur?

Kennarar og starfsfólk skóla er bólusett í viku 31-32 (3.-13. ágúst) sjá nánar hér: Bólusetning kennara og skólastarfsmanna. Börn 12-15 ára verða bólusett í viku 34 (23.-24.ágúst) sjá nánar hér: Bólusetning 12-15 ára barna. Fjöldabólusetningar hefjast aftur í viku 33 (16.-20. ágúst), sjá: Dagskrá bólusetninga vikur 29 - 34.

Ég komst ekki í bólusetningu fyrir sumarhlé bólusetninga. Hvenær er næsta tækifæri?
Næstu vikur verður bólusett eftir þörfum á Suðurlandsbraut 34. Bólusett er alla virka daga og mæting er kl. 14 stundvíslega. Pfizer og Janssen er alla virka  daga. Seinni skammtur af AstraZeneca er mánudaga til fimmtudaga og Moderna er á miðvikudögum. Þessi bólusetning er fyrir þá sem geta alls ekki beðið þar til eftir miðjan ágúst og hámarkið hvern dag eru 100 einstaklingar. Þar sem aðeins er um lágmarksmönnun að ræða verður fólk að reikna með einhver bið geti orðið.  (Uppfært 20. júlí)

Eru einhverjir sem mega ekki fá Janssen?
Janssen er bara fyrir þá sem eru 18 ára á árinu og eldri. Barnshafandi konur fá aðeins mRNA bóluefni (Pfizer/Moderna). Aðrar frábendingar eru ekki.

Hvenær verður öllum 12-15 ára börnum boðin bólusetning?

Bólusetningar 12-15 ára barna á höfuðborgarsvæðinu eru fyrirhugaðar 23. og 24. ágúst í Laugardalshöll. Foreldrar sem þiggja bólusetningu fyrir börnin sín eru beðnir um að fylgja börnunum sínum og þannig veita þeir samþykki fyrir bólusetningunni. Boð verða ekki send út fyrir þennan dag, mæting fer eftir árgangi og fæðingarmánuði barns. Sjá nánar: Bólusetning 12-15 ára barna.

Hvaða 12-15 ára börn geta fengið bólusetningu núna?

Bólusetning barna eru fyrirhugaðar 23. og 24. ágúst. Börn fá ekki bólusetningu fyrir þann tíma nema í ákveðnum tilvikum. Þetta eru einkum börn sem eru með ákveðna sjúkdóma og börn sem eru að flytjast erlendis. Ferðalög erlendis eru ekki næg ástæða. 

Bólusetningavottorð

Hvar fæ ég vottorð um bólusetningu?
Á mínum síðum á heilsuvera.is. Þú þarft að hafa rafræn skilríki og  vita númerið á vegabréfinu þínu. Vottorðið er á íslensku og ensku og er ókeypis.

Ég er ekki með aðgang að mínum síðum á heilsuvera.is. Hvernig fæ ég vottorð?
Þú getur haft samband við netspjall á heilsuvera.is eða heilsugæslustöðina þína og óskað eftir að fá vottorð sent í tölvupósti. 

Hvernig virka rafrænu vottorðin?
Rafrænu vottorðin eru með QR kóða sem geyma allar upplýsingar EU Digital COVID Certificate.  

Gula bólusetningaskírteinið?
Ef áfangastaður fer fram á „gula bólusetningaskírteinið“ er hægt að nálgast það á heilsugæslustöðvum, gegn greiðslu.   

Ég fékk fyrri skammt af AstraZeneca og seinni skammt af Pfizer. Fæ ég vottorð og viðurkenna önnur lönd það?
Já, þú færð vottorð og vottorðið er fullgilt samkvæmt reglum um Evrópska bólusetningarvottorðið EU Digital COVID Certificate.  

Get ég fengið vottorð um að hafa fengið fyrri skammt?
Já, á mínum síðum á heilsuvera.is. Þú þarft að vita númerið á vegabréfinu þínu. Á vottorðinu kemur fram dagssetning fyrri skammts og að bólusetningu sé ólokið. Vottorðið er á íslensku og ensku og er ókeypis.

Ég er að fara til útlanda. Hvar fæ ég upplýsingar um reglur á áfangastað?
Heilsugæslan hefur ekki upplýsingar um fyrirkomulag erlendis. Við bendum á Ferðaráð vegna COVID-19 heimsfaraldurs (stjornarradid.is) og Ferðir til útlanda (covid.is)

Bólusetningar

Ég greindist með COVID-19 sýkingu? Fæ ég bólusetningu?

Þau sem eru með skráð mótefni geta fengið bólusetningu þegar 3 mánuðir eru liðnir frá sýkingu.

Ég bý á Íslandi en er ósjúkratryggð. Fæ ég bólusetningu og kostar það eitthvað?
Allir sem eru með íslenska kennitölu fá ókeypis bólusetningu. 

Ég er með íslenska kennitölu en bý erlendis Fæ ég bólusetningu á Íslandi?
Allir sem eru með íslenska kennitölu fá ókeypis bólusetningu.

Ég er ekki með íslenska kennitölu. Get ég fengið bólusetningu?
Já, íbúar og starfsmenn af erlendum uppruna eru velkomnir í bólusetningu en nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram í bólusetningakerfið. Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu sendir þú póst á bolusetning@heilsugaeslan.is til að skrá þig. Annars staðar hefur þú samband við næstu heilsugæslu. Fram þarf að koma: Nafn, fæðingardagur og ár, kyn, upprunaland, netfang og helst íslenskt GSM símanúmer til að taka við SMS boði. Þegar búið er að staðfesta að þú sért kominn inn í bólusetningakerfið getur þú mætt í bólusetningu. (Uppfært 16. júlí)

Sjá nánar: Bólusetning starfsmanna / íbúa af erlendum uppruna gegn COVID-19 sem hafa íslenska kennitölu og þeirra sem ekki hafa íslenska kennitölu 

Ég er með lögheimili á landsbyggðinni en dvel í Reykjavík? Get ég fengið bólusetningu þar
Já, þú getur komið á Suðurlandsbraut 34, kl. 14 stundvíslega alla virka daga og fengið Pfizer eða Janssen. Þessi bólusetning er fyrir þá sem geta alls ekki beðið þar til eftir miðjan ágúst. (Uppfært 20. júlí)

Ég er með lögheimili í Reykjavík en dvel á landsbyggðinni? Get ég fengið bólusetningu þar?
Þú getur haft samband við heilsugæsluna á staðnum og kannað hvort það er hægt. 

Ég var í útlöndum þegar ég fékk boð í bólusetningu. Get ég fengið bólusetningu í þegar ég kem heim?
Já, þú getur komið á Suðurlandsbraut 34, kl. 14 stundvíslega alla virka daga og fengið Pfizer eða Janssen. Þessi bólusetning er fyrir þá sem geta alls ekki beðið þar til eftir miðjan ágúst. (Uppfært 20. júlí)

Ég fékk bólusetningu erlendis. Get ég fengið hana skráða á Íslandi?
Já, þú getur haft samband við heilsugæsluna þína. Þú þarft að hafa gögn sem staðfesta bólusetninguna og þetta þarf að vera bóluefni sem er samþykkt á Íslandi. Eins og er skráum við eingöngu bóluefni sem eru notuð hérlendis.

Seinni skammturinn

Ég komst ekki í seinni skammtinn, Hvað gerist ef ég missi af seinni sprautunni innan tímarammans?
Fáðu þá seinni sprautuna eins fljótt og þú getur. Líklegt er að það sé betra en ekki þó að ekki sé hægt að tryggja fulla virkni. Pfizer er í boði alla virka daga.

Hvenær er seinni sprautan af Pfizer?
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 3 vikur. Til að hámarka virkni þurfa að lágmarki 19 dagar að líða milli skammta og að hámarki 42. Seinni skammtur innan 6 vikna sleppur.

Hvenær er seinni sprautan af Moderna?
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 4 vikur. Til að hámarka virkni þurfa að lágmarki 25 dagar að líða milli skammta og að hámarki 35. Seinni skammtur má líka vera aðeins seinna. 

Hvenær er seinni sprautan af  AstraZeneca
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 8-12 vikur. Ef nauðsyn krefur má hafa styttra bil en vörn er betri með lengra bili. Bil milli skammta má aldrei vera styttri en 4 vikur. 

Ég fékk fyrri af skammt af AstraZeneca. Má ég fá seinni skammt af Pfizer?
Já, það er í fínu lagi en AstraZeneca er líka í boði í hverri viku.

Ég fékk fyrri sprautu í útlöndum get ég fengið seinni sprautu heima?
Ef það er bóluefni sem notað er á Íslandi er það hægt í flestum tilfellum. Bólusett er með Pfizer alla virka daga kl. 14. á Suðurlandsbraut 34. Seinni skammtur af AstraZeneca er í boði mánudaga til fimmtudaga og seinni skammtur af Moderna á miðvikudögum, allt kl. 14.00. Mætið með upplýsingar um fyrri bólusetningu, þegar kominn er tími á seinni bólusetningu. (Uppfært 16. júlí)

Ég er fékk fyrri skammt á Íslandi, get ég fengið seinni skammt í útlöndum?
Við getum engu svarað um það. Það fer eftir áfangastað.

Barnshafandi konur

Ég er barnshafandi. Á ég að fara í bólusetningu?

Barnshafandi konum býðst bólusetning með mRNA bóluefni. Hægt er að fara á Suðurlandsbraut 34 stundvíslega klukkan 14 á virkum dögum til að fá bólusetningu.Mælt er með að bólusetja á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu en ekki þegar líffæramyndun er í hámarki á fyrsta þriðjungi. Þar til frekari upplýsingar liggja fyrir um notkun Janssen bóluefnis hjá barnshafandi konum verða mRNA bóluefnin notuð fyrir þær hér á landi. Sjá: Bólusetning barnshafandi kvenna gegn Covid-19.