Allar umsóknir um vísindarannsóknir sem berast Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fara fyrir Vísindanefnd HH og HÍ.

Næsti fundur nefndarinnar verður miðvikudaginn 6. mars. Venjulega fundar nefndin ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti, og oftar ef margar umsóknir liggja fyrir.

Umsóknir til Vísindanefndar HH og HÍ þurfa að jafnaði að hafa borist eigi síðar en viku fyrir auglýstan fund. Fjallað verður um rannsóknarumsóknir í þeirri röð sem þær berast. Ef margar umsóknir berast með litlum fyrirvara gæti þurft að fresta umfjöllun um þær síðustu til næsta fundar.

Umsókn skal skilað á rafrænu formi. Þar skulu að öllu jöfnu koma fram sömu upplýsingar og krafist er af Vísindasiðanefnd og rannsóknasjóðum.

Reglur um meðferð umsókna vegna vísindarannsókna innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Tilgangur

Tilgangur þessara reglna er að stuðla að markvissri rannsóknastefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) þar sem áhersla er lögð á rannsóknir sem efla heilsugæsluna og þekkingargrunn hennar; stuðla að styrkri samvinnu HH og Háskóla Íslands (HÍ) í samræmi við samning þessara aðila og stuðla að því að HH og eftir atvikum heilsugæslan almennt verði í ríkari mæli virkur samstarfsaðili í vísindastarfi strax við mótun rannsóknar auk þess að vera vettvangur rannsókna og gagnasafn.

Vísindanefnd HH og HÍ

Vísindanefnd HH og HÍ (Vís-HH) starfar innan Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

  • Hlutverk Vís-HH er að leggja fræðilegt mat á umsóknir og gefa umsögn um þær. Allar umsóknir um vísindarannsóknir innan HH og/eða samstarfsaðila HH skal senda til Vís-HH til umsagnar. Nefndin forgangsraðar þeim umsóknum sem hún metur hæfar samkvæmt ákveðnu verkferli
  • Nefndin metur siðferðileg álitamál sem hluta af heildarmati á verkefninu.
  • Nefndin er umsagnaraðili og getur  hafnað rannsóknum. Heimili nefndin  rannsókn skilar hún áliti sínu til framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar HH, sem leggja mat á rekstrarlegar forsendur fyrir hverri rannsókn og afgreiða umsóknir  aftur til Vís-HH til endanlegrar afgreiðslu.
  • Ef óskað er eftir gögnum úr sjúkraskrám er slíkur aðgangur eingöngu heimilaður að fengnu samþykki vörslumanns sjúkraskrár.
  • Þegar niðurstaða framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar liggur fyrir svarar Vís-HH umsækjanda.
  • Vís-HH heldur skrá um allar rannsóknir sem eru framkvæmdar á vettvangi HH.

Ferli rannsóknabeiðna

Stjórnendur HH leitast við að varðveita sjálfstæði einstakra starfsstöðva innan sinna vébanda og styðja við frumkvæði og áhuga einstaklinga innan heilsugæslunnar. Stjórnendur starfsstöðva HH eru því í lykilhlutverkum varðandi skipulag og umfang rannsókna og þróunarverkefna hver á sinni stöð. Sama á við um stjórnendur annarra heilsugæslustöðva ef um samstarfsverkefni er að ræða. Ferli umsókna fer því eftir umfangi verkefnisins sem hér segir.

  • Allar umsóknir um vísindarannsóknir sem tengjast HH skulu sendar til Vís-HH til umsagnar og skráningar
  • Sé rannsókn bundin við eina starfsstöð innan HH og hafi hlotið samþykki viðeigandi yfirmanna hennar þarf Vís-HH ekki að samþykkja rannsóknina.
  • Ef rannsókn nær til fleiri en einnar starfseiningar HH þarf hún alltaf að vera metin hjá Vís-HH.
  • Ætíð skal liggja fyrir samþykki stjórnenda viðkomandi stöðva áður en umsókn er samþykkt af Vís-HH og framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar.
  • Mat á innsendri umsókn skal að öllu jöfnu lokið innan 6 vikna frá því að öll umbeðin gögn hafa verið send inn. Ef sýnt þykir að afgreiðsla umsóknar muni dragast lengur en þann tíma mun Vís-HH útskýra það fyrir umsækjendum með góðum fyrirvara.
  • Óheimilt er að hefja rannsókn áður en tilskilin leyfi liggja fyrir.

Form umsókna

Umsókn skal skilað á rafrænu formi. Þar skulu að öllu jöfnu koma fram sömu upplýsingar og krafist er af Vísindasiðanefnd og rannsóknasjóðum.

Kostnaður og greiðslur

Í umsókn skulu umsækjendur gera sérstaka grein fyrir fjárhagsáætlun og fjármögnun rannsóknarinnar. Þar er lögð áhersla á að gerð sé grein fyrir kostnaði, hvort sem hann er greiddur sérstaklega af rannsóknarfé, eða leggst með beinum eða óbeinum hætti á HH og/eða HÍ. HH og HÍ geta gert kröfu til rannsakanda um að greiða kostnað sem hlýst af rannsókninni og lendir á þessum aðilum.

Komi sérstakar tekjur til vegna aðildar HH að rannsókn skulu þær í samræmi við hlutdeild HH í rannsókninni renna í sérstakan vísinda- og þróunarsjóð HH. Reglur um úthlutun úr sjóðnum skulu samþykktar af framkvæmdastjórn HH.

Forgangsröðun

Eftir mat á vísindalegu og samfélagslegu gildi rannsókna er tekið tillit til eftirfarandi atriða við forgangsröðun ef þörf krefur: 

  • Til starfsfólks. en verkefni þeirra njóta forgangs. Almennt er gerð sú krafa af hálfu HH að einn rannsakenda eða fleiri séu starfsmenn heilsugæslunnar og með háskólamenntun við hæfi.
  • Til námsfólks við HÍ og þess þrönga tímaramma sem það hefur til að ljúka verkefnum sínum.
  • Til doktors- og meistaranámsnema sem eru að vinna að rannsóknarverkefnum, enda séu slík rannsóknarstörf í samræmi við samning HH og HÍ.

Afgreiðsla og heimildir til rannsóknastarfa

Vís-HH gefur umsóknum eftirfarandi umsögn:

  • Samþykkt/mælt með.
  • Samþykkt en mælt með endurmati skv. ábendingum eða athugasemdum.
  • Hafnað.

Auk þess gefur nefndin þeim rannsóknum sem hún mælir með stig frá 1 til 5 vegna forgangsröðunar, þar sem 5 vegur mest.

  • Vís-HH sendir umsögn sína til framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar til samþykktar. Vís-HH svarar umsækjanda síðan með bréfi/tölvupósti.
  • Verði breyting á tímaáætlun rannsóknar skal umsækjandi leggja fram nýja áætlun til Vís-HH til samþykktar
  • Verði mælt með rannsókn með breytingum eða athugasemdum skal Vís-HH óska eftir svarbréfi eða endurbættri áætlun innan tiltekinna tímamarka, frá dagsetningu umsagnar sinnar. Berist ekki endurbætt áætlun innan þess tíma verður litið svo á að umsækjandi hafi hætt við rannsóknina.
 

Uppfært 1. mars 2021

Vísindanefnd HH og HÍ

Nefndarmenn

  • Emil L. Sigurðsson, prófessor í heimilislæknisfræði og forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, formaður
  • Hannes Hrafnkelsson, lektor, heilsugæslulæknir, HH
  • Ragnheiður Bachmann, ljósmóðir, HH
  • Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði, Læknadeild, HÍ
    • Til vara: Fanney Þórsdóttir sálfræðingur, Læknadeild, HÍ
  • Brynja Örlygsdóttir, prófessor, Hjúkrunarfræðideild, HÍ

Starfsmaður nefndarinnar er Arna Þórdís Árnadóttir verkefnastjóri, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu 

Netfang er nefndarinnar er visindanefnd@heilsugaeslan.is

Skipun

Vísindanefnd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Háskóla Íslands (HÍ) er skipuð af framkvæmdastjórn HH. 

Í nefndinni sitja fimm fulltrúar. Þrír eru tilnefndir af HH og er æskilegt að einn þeirra sé í samhliða starfi við HÍ. Tveir eru fulltrúar frá HÍ, annar tilnefndur af læknadeild og hinn af hjúkrunarfræðideild. Æskilegt er að þeir séu í samhliða/tengdum störfum við HH. Formaður nefndarinnar komi úr hópi fulltrúa HH. Nefndin getur kallað til fulltrúa annarra starfsstétta eftir því sem þörf krefur og við á við afgreiðslu einstakra umsókna. 

Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Ekki er greitt sérstaklega fyrir setu í nefndinni.

Hlutverk

Hlutverk Vísindanefndar HH og HÍ er að leggja fræðilegt mat á umsóknir og gefa umsögn um þær. Allar umsóknir um vísindarannsóknir innan HH skal senda til nefndinni til umsagnar. Nefndin forgangsraðar þeim umsóknum sem hún metur hæfar samkvæmt ákveðnu verkferli, samanber Fylgiskjal II. Nefndin metur siðferðileg álitamál sem hluta af heildarmati á verkefninu.

Vísindanefnd HH og HÍ er umsagnaraðili og getur  hafnað rannsóknum. Heimili nefndin rannsókn skilar hún áliti sínu til framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar HH, sem leggja mat á rekstrarlegar forsendur fyrir hverri rannsókn og afgreiða umsóknir aftur til nefndarinnar til endanlegrar afgreiðslu. Þegar niðurstaða framkvæmdastjóranna liggur fyrir svarar nefndin umsækjanda. 

Vísindanefnd HH og HÍ heldur skrá um allar rannsóknir sem eru framkvæmdar á vettvangi HH.

Samþykktar umsóknir

Rannsóknir samþykktar af Vísindanefnd HH og HÍ og rannsóknir skráðar á eina starfsstöð:

2022

2021

janúar 2014 - águst 2017