Það er engin heilsa án geðheilsu

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sinna meðferð barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra og fullorðinna 18 ára og eldri.

Sálfræðingar starfa sem hluti af þverfaglegum teymum og í náinni samvinnu við skóla og félagsþjónustu.

Læknar heilsugæslunnar vísa til sálfræðinga innan stöðvar, þannig að fyrsta skrefið er að bóka tíma hjá heimilislækni.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um þjónustu sem er í boði á öllum okkar stöðvum.

Fyrirkomulagið getur verið mismunandi milli stöðva og upplýsingar um það eru á síðum heilsugæslustöðvarinnar þinnar

Sérþjónusta

Sálfræðingar starfa einnig hjá starfsstöðvum HH sem veita sérhæfða þjónustu.

Þær eru Geðheilsumiðstöð barna, Geðheilsuteymi HH austursuður og vesturGeðheilsuteymi taugaþroskaraskana, Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna og Geðheilsuteymi fangelsa.

Sálfræðiþjónusta fyrir börn og unglinga

Sálfræðingur á heilsugæslustöð veitir börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda og foreldrum þeirra ráðgjöf. 

Tilvísun í sálfræðiþjónustu

  • Læknir á heilsugæslustöð sendir tilvísun til sálfræðings til nánara mats og upplýsir um áætlaðan biðtíma

Þjónusta sálfræðinga

  • Meðferð barna og unglinga (undir 18 ára) við vægum til miðlungs alvarlegum tilfinninga- og hegðunarvanda
    • Almennt miðað við 4-6 viðtöl
  • Ráðgjafarviðtöl við foreldra ef um er að ræða ung börn eða börn með hegðunarvanda
    • Almennt miðað við 1-3 viðtöl
  • Meðferð barna er ávallt unnin í samvinnu við foreldra/forráðamenn
  • Á nokkrum heilsugæslustöðvum eru hópnámskeið fyrir börn með kvíða eða depurð

Samstarf

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum eru í samstarfi við lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður stöðvarinnar. 

Aðrir samstarfsaðilar eru t.d. félagsþjónusta og sérfræðiþjónusta skóla, Barna- og unglingageðdeild Landspítala, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð og barnavernd. 

Sálfræðiþjónusta fyrir fullorðna 18 ára og eldri

Sálfræðingar vinna í þverfaglegum teymum með læknum og hjúkrunarfræðingum og taka við tilvísunum frá læknum stöðvanna. 

Þjónusta sálfræðinga felur í sér mat á vanda, meðferðaráætlun og sálfræðimeðferð, bæði einstaklings- og hópmeðferð.  Þjónustan á einnig við um konur í mæðravernd og ung- og smábarnavernd.

Áhersla er lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur.  

Ef vandi reynist alvarlegur í matsviðtali þá er vísað áfram í viðeigandi meðferð utan heilsugæslu.  

Hugræn atferlismeðferð - hópar

Í hugrænni atferlismeðferð eða HAM lærir þú aðferðir til að takast á við tilfinningalega vanlíðan á árangursríkan hátt. Rannsóknir sýna að HAM er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag t.d. við kvíða og þunglyndi.

Heilsugæslan býður upp á HAM meðferð sem fer fram í hóp einu sinni í viku, tvo tíma í senn, í alls sex skipti. Meðferðin fer fram á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma, mögulega á annarri stöð en í þínu hverfi. Meðferðin er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri

Meðferðin felur í sér fræðslu, umræður og heimaverkefni. Sálfræðingar stjórna meðferðinni með þátttöku annarra fagstétta eins og  t.d. hjúkrunarfræðinga.

Til þess að komast á námskeiðið þarf að hafa tilvísun frá lækni. Ástæður þess að vísað er í hugræna atferlismeðferð (HAM) á heilsugæslustöð geta verið margvíslegar. Langflestum er þó vísað vegna vanlíðanar, svo sem kvíða, þunglyndis, streitu og álagseinkenna, sem hefur áhrif á daglegt líf og lífsgæði.  

Greitt er komugjald á heilsugæslustöð fyrir hvert skipti sem komið er á námskeiðið.

Sálfræðimeðferð á meðgöngu og eftir fæðingu

Sálfræðingar starfa í þverfaglegu teymum með læknum, ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Þeir veita sálfræðimeðferð á meðgöngu og eftir fæðingu.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?