Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og fjöldatakmarkana er því miður ekki hægt að bjóða HAM hópmeðferðir á heilsugæslustöðvum.
Hóparnir byrja um leið og aðstæður leyfa og þátttakendur fá upplýsingar um nýjar tímasetningar
Í hugrænni atferlismeðferð eða HAM lærir þú aðferðir til að takast á við tilfinningalega vanlíðan á árangursríkan hátt. Rannsóknir sýna að HAM er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag t.d. við kvíða og þunglyndi.
Heilsugæslan býður upp á HAM meðferð sem fer fram í hóp einu sinni í viku, tvo tíma í senn, í alls sex skipti. Meðferðin fer fram á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma, mögulega á annarri stöð en í þínu hverfi. Meðferðin er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri
Meðferðin felur í sér fræðslu, umræður og heimaverkefni. Sálfræðingar stjórna meðferðinni með þátttöku annarra fagstétta eins og t.d. hjúkrunarfræðinga.
Til þess að komast á námskeiðið þarf að hafa tilvísun frá lækni. Ástæður þess að vísað er í hugræna atferlismeðferð (HAM) á heilsugæslustöð geta verið margvíslegar. Langflestum er þó vísað vegna vanlíðanar, svo sem kvíða, þunglyndis, streitu og álagseinkenna, sem hefur áhrif á daglegt líf og lífsgæði.
Greitt er komugjald á heilsugæslustöð fyrir hvert skipti sem komið er á námskeiðið.