Eftirspurn eftir þjónustu geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur aukist talsvert undanfarið. Um 900 tilvísanir bárust til teymanna á síðasta ári, sem er tæplega 16 prósenta aukning frá árinu 2020, að því er fram kemur í ársskýrslu teymanna.
Geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru þrjú talsins, skipulögð þannig að hvert sinnir ákveðnum hluta höfuðborgarsvæðisins. Þverfagleg þjónusta teymanna hefur sannað gildi sitt og vægi í meðferð við flóknum geðrænum vanda frá tilkomu þeirra hjá heilsugæslunni árið 2017.
Geðheilsuteymin sinna öllum geðröskunum á breiðum grundvelli og starfa eftir batahugmyndafræði. Hugmyndafræðin gengur út á áherslu á að viðhalda von og skapa betra líf með því að byggja á styrkleikum. Hún grundvallast á samvinnu við einstaklinginn með markmiðasetningu, sjálfsábyrgð og valdeflingu.
Meðalmeðferðartíminn hjá teymunum er á bilinu níu til fimmtán mánuðir, breytilegur eftir teymum og svæðum. Hverju teymi er ætlað að sinna um 200 manns í virkri meðferð á hverju ári. Um það bil tveir þriðju hlutar þeirra sem nýta sér þjónustu teymanna eru konur og um helmingur er undir 40 ára aldri þó hlutföllin séu nokkuð mismunandi eftir teymum, að því er fram kemur í ársskýrslunni.
Þarf að fjölga starfsfólki
Í skýrslunni segir að tímabært sé að endurskoða mönnun geðheilsuteymanna í takti við aukna eftirspurn enda lagt af stað með lágmarksmönnun við stofnun teymanna árið 2017. Mikilvægt sé að meta þörfina á hverju þjónustusvæði og miða starfsemi og fjölda starfsfólks við að anna þörfinni. Í skýrslunni er lagt til að stöðugildum í hverju teymi verði fjölgað úr 12 í 16 og að tryggt verði að tvær stöður geðlækna verði í hverju teymi. Einnig er bent á að hægt sé að létta á teymunum með forvörnum og öðrum úrræðum í samfélaginu sem þurfi að styrkja sérstaklega.
Hægt er að kynna sér starfsemi geðheilsuteymanna í ársskýrslu þeirra fyrir árið 2021.
Eftirspurn eftir þjónustu geðheilsuteyma að aukast
13.04.2022