Brugðist við ofbeldi barna með auknu samstarfi

Mynd af frétt Brugðist við ofbeldi barna með auknu samstarfi
12.12.2022
Brugðist verður við auknu og alvarlegra ofbeldi meðal barna með þverfaglegu samstarfi sem ætlað er að draga úr líkum á ofbeldisbrotum og stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu í Mosfellsbæ. 

Að samstarfinu koma Sveitarfélagið Mosfellsbær, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Viljayfirlýsing um samstarfið var undirrituð síðastliðinn föstudag.

Börn í viðkvæmri stöðu eru einstaklingar yngri en 18 ára sem eru þolendur og gerendur í ofbeldismálum og falla undir tilkynningarskyldu almennings samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Þar er til dæmis um að ræða börn sem búa við óviðunandi uppeldisaðstæður, verða fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofna heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Haldin var fjölmenn vinnustofa í lok mars síðastliðins með fagfólki úr Mosfellsbæ til að safna saman ábendingum um hvernig megi þróa þverfaglegt samstarf þeirra sem eiga vinna með börnum sem teljast í viðkvæmri stöðu vegna ýmis konar ofbeldis og vanrækslu. Á grunni ábendinganna frá vinnustofunni hafa samstarfsaðilar mótað sameiginlegt verklag og unnið að innleiðingu þess. Jafnframt hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu endurskoðað verklag sitt við rannsókn ofbeldisbrota barna og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mótað reglur um vinnslu ágreiningsmála með áherslu á vernd barna í viðkvæmri stöðu. 

Verkefnið er hluti af heildstæðri vinnu hjá lögreglunni við mótun á varanlegum stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra, en verkefnið var styrkt af bæði félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Stefnt er að því að verklagið í Mosfellsbæ muni nýtast við mótun verklagsreglna ríkislögreglustjóra fyrir lögregluna vegna barna í viðkvæmri stöðu, þar með talið hlutverk lögreglu vegna laga um samþættingu þjónustu til farsældar barna, rannsókn ofbeldisbrota meðal barna og ungmenna og verklag um tilkynningar á milli lögreglu, barnaverndar og skóla þegar kemur að ofbeldi gegn börnum.