Staðreyndir um skimun fyrir krabbameini í leghálsi

Mynd af frétt Staðreyndir um skimun fyrir krabbameini í leghálsi
12.06.2021

Við breytingar á framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi hafa heilbrigðisyfirvöld aðeins haft að leiðarljósi heilsufarslega hagsmuni kvenna og með hvaða hætti væri m.a. best hægt að tryggja öryggi þeirra og gæði rannsókna sýna vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

Árangur af skimun byggist á mörgum þáttum en þátttaka sá lang mikilvægasti. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini hafði farið minnkandi sl. 30 ár og verið undir viðunandi mörkum í tæp 10 ár. Nú er skimun í boði á öllum heilsugæslustöðvum landsins og greitt 500 kr. komugjald.

Landlæknir gaf út 6. desember 2020 að hér á landi skyldu gilda skimunarleiðbeiningar vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi sem byggjast á dönskum skimunarleiðbeiningum. Í framhaldinu var samið við rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahúsið, sem er ein fremsta rannsóknarstofa á sínu svið í Evrópu.

Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt áherslu á að ekki yrði rof í skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi og það hefur tekist. Yfirfærsla verkefnisins hefur reynst flóknari og tafsamari en áætlað var og á sama tíma hefur heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi vegna COVID-19. Þetta og ýmsir aðrir þættir hafa tafið að niðurstöður leghálssýna hafi borist innan ásættanlegra tímamarkmiða. Forritun skimunarskrár er í algerum forgangi en hefur tafist af margvíslegum ástæðum. Áhersla er lögð á örugga meðhöndlun allra sýna og merkingar, sem er tafsamt, þar til sjálfvirk skráning er tilbúin,

Heilsugæslan hefur undanfarið átt samtal við ýmsa hagsmunaaðila s.s. félag Kvensjúkdómalækna og fulltrúa Krabbameinsfélagsins til að vinna að sátt um þetta mikilvæga verkefni sem er að tryggja þjónustu og öryggi í þessum mikilvæga máli.

Af hverju eru skimunarsýni frá leghálsi rannsökuð á Hvidovre sjúkrahúsinu 

Hálft ár er liðið síðan breytt skipulag fyrir skimun á krabbameinum tók gildi. Þrátt fyrir byrjunar erfiðleika sem senn sér fyrir endann á hefur ekki orðið rof á skimun hér á landi. Ýmsir aðilar hafa gert alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun að leghálssýni vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi séu rannsökuð í Danmörku og ýmist krafist þess eða gert ákall um að þau séu rannsökuð á Íslandi. Það er því vel við hæfi að útskýra þá ákvörðun betur. 

Forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) var falið að þarfa- og kostnaðargreina og leita tilboða varðandi rannsóknir á sýnum úr skimun fyrir krabbameini í leghálsi fyrir 1. október 2020. Í ágúst 2020 lá fyrir að Landspítalinn óskaði ekki eftir að sinna leghálsfrumurannsóknum. Bæði Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Hvidovre sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn sýndu áhuga á samstarfi og gerðu verðtilboð.

Embætti landlæknis gaf út 6. desember 2020 að hér á landi skyldu gilda skimunarleiðbeiningar vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi sem byggjast á dönskum skimunarleiðbeiningum. Þá varð ljóst að HH hafði ekki aðra kosti í stöðunni en reyna að ná samningum við Hvidovre sjúkrahúsið til að geta uppfyllt skilyrði skimunarleiðbeininga Embættis landlæknis. Karólínska sjúkrahúsið var upplýst um þessa ákvörðun embættis landlæknis.
   
Ef ekki hefðu náðst samningar við Hvidovre sjúkrahúsið hefði HH þurft að fara þess á leit við heilbrigðisyfirvöld að Embætti landlæknis félli frá nýtekinni ákvörðun um nýjar skimunarleiðbeiningar og heilbrigðisyfirvöld freistuðu þess að ná samningum við Krabbameinsfélagið um áframhaldandi þjónustusamning. 

Í nýlegri eftirlitsskýrslu embættis landlæknis var bent á alvarleg gæðavandamál hjá þáverandi frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins þar sem umfangsmikil og afdrifarík mistök voru gerð við greiningu á leghálssýnum. Það var mat HH að samningur við rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahúsið, sem er ein fremsta rannsóknarstofa á sínu svið í Evrópu, myndi betur geta tryggt öryggi kvenna og gæði rannsókna leghálssýna en áframhaldandi samningur við Krabbameinsfélagið.
 
Ef ekki hefðu náðst samningar við Hvidovre sjúkrahúsið hefði það haft neikvæðar afleiðingar og tafið nauðsynlegar umbætur. Í fyrsta lagi hefði þurft að fresta upptöku á HPV frumskimun hér á landi, sem rannsóknir hafa sýnt að lækkar dánartíðni. Í öðru lagi hefði þurft að fresta upptöku „Test of Cure“ sem getur dregið mikið úr óþarfa eftirliti eftir keiluskurði. Í þriðja lagi hefði þurft að fresta því að bjóða konum sjálftökupróf sem geta nýst öllum konum, ekki síst konum sem ekki vilja eða geta ekki nýtt sér hefðbundna sýnatöku en rannsóknir hafa sýnt að sjúkdómsbyrði er meiri hjá þessum hópi kvenna. Í fjórða lagi hefði þurft að fresta því að auka aðgengi kvenna að skimun. Í fimmta lagi hefði þurft að fresta því að lækka kostnað kvenna vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi nema aukið fjármagn hefði komið til. Að lokum hefði það komið í veg fyrir aðgengi að síbreytilegri og örri þekkingu og tækni á þessu sviði. Þetta hefði leitt af sér að markmið heilbrigðisyfirvalda um að auka þátttöku í skimun, lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins hér á landi hefðu frestast. Það hefði verið hin raunverulega aðför að heilsu kvenna. 

Það skal sérstaklega tekið fram að bið eftir að niðurstöður birtast konum á Island.is er óháð því hvar sýnin eru rannsökuð. Það er misskilningur að biðin væri styttri ef sýnin væru rannsökuð á Landspítala. 

Það skal einnig sérstaklega tekið fram að niðurstöður berast Samhæfingarstöð krabbameinsskimana innan þriggja vikna frá móttöku sýnis á rannsóknarstofu Hvidovre sjúkrahússins þó þær séu ekki sýnilegar í lyfseðlagátt embættis landlæknis eða á Island.is. Ef niðurstaða rannsóknar mælir með frekari greiningu eins og leghálsspeglun er strax hringt í viðkomandi konu. Ef niðurstaða rannsóknar mælir með eftirliti eftir 6 eða 12 mánuði eða hefðbundinni skimun eftir 3 eða 5 ár birtist það á Island.is en það gæti tekið tíma eins og áður segir.  

(Frétt breytt 1. júlí)