Staða leghálsskimunar - Vika 17

Mynd af frétt Staða leghálsskimunar - Vika 17
28.04.2021

Staðan í þessari viku

Nú hafa verið send utan um 4.500 sýni. Sýnafjöldinn er talsvert meiri en gert var ráð fyrir. Vonandi er það vegna þess að konur mæti nú betur en áður en ekki vegna ofskimunar. 

Vel gengur að koma sýnum til rannsóknar og svör berast innan þriggja vikna frá komu sýnanna á rannsóknarstofu. Engin sýni hafa týnst sem hafa borist heilsugæslunni. Hins vegar má reikna með að svartími geti verið um átta vikur á næstunni. Það er vegna uppsafnaðra sýna frá fyrri þjónustuaðila, aukins fjölda sýna, COVID-19 og skráningar í skimunarskrá Embættis landlæknis.   

Leghálskrabbamein þróast yfirleitt 10-30 árum eftir að kona smitast af HPV. Því hefur töf á skimun eða svörum við henni um vikur, mánuði eða jafnvel ár þannig sjaldan áhrif á heilsu heilbrigðra einkennalausra kvenna. 

Fljótlega, þegar verður búið að vinna upp töf og lausnir á skráningu í skimunarskrá verða komnar til framkvæmda verður hægt að uppfylla alþjóðlega gæðastaðla: 

  • Hlutfall kvenna sem fá niðurstöðu innan 4 vikna frá því sýni var tekið > 80%
  • Hlutfall kvenna sem fá niðurstöðu innan 6 vikna frá því sýni var tekið 100%

Víða tefst skimun eða er frestað vegna COVID-19

Vegna COVID-19 var allri skimun fyrir krabbameini í leghálsi frestað í 5 mánuði í Skotlandi, skimunum fyrir krabbameini í brjóstum, ristli og ósæðagúl var einnig frestað. Þessi ákvörðun skoskra heilbrigðisyfirvalda mætti skilningi almennings og fagfólks.

Þó skimun hafi ekki verið frestað vegna COVID-19 í Englandi urðu talsverðar tafir á greiningu leghálssýna vegna rannsókna tengdum COVID-19 en sömu eða svipuð tæki eru nýtt til greiningar COVID-19 og HPV. Almenningu og fagfólk í Englandi hefur sýnt þessu skilning.  

Staðan er því svipuð víða í löndunum í kringum okkur.

Breyttar áherslur við skimun í Svíþjóð á tímum COVID-19

Vegna takmarkana sem gripið var til í Svíþjóð þegar COVID-19 faraldurinn var sem verstur þar í landi brugðu sænsk heilbrigðisyfirvöld á það ráð að senda konum sjálftökupróf í stað þess að þær kæmu á heilsugæslustöð og þannig reyndu þau að tryggja konum aðgang að skimun fyrir leghálskrabbameini. Þetta var m.a. mögulegt í Svíþjóð vegna þess að þar hófust HPV bólusetningar snemma og þeir buðu stúlkum bólusetningu til 26 ára aldurs. 

Nánari upplýsingar

Á netspjalli á heilsuvera.is er boðið upp á sérstaka svarþjónustu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Nánari upplýsingar um skimun eru á síðum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hér á vefnum.

Við bendum líka á svör okkar við algengum spurningum kvenna.