Ánægja með þjónustu HH

Mynd af frétt Ánægja með þjónustu HH
20.02.2014

Um 83% notenda eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og liðlega 75% bera mikið eða frekar mikið traust til hennar. Þá telja tæplega 89% að mjög eða frekar vel hafi verið leyst úr erindi þeirra þegar þeir komu síðast á heilsugæslustöðina sína. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri þjónustukönnun sem rannsóknafyrirtækið Maskína gerði fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í lok síðasta árs.  

„Ég tel að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins geti unað nokkuð vel við þessar niðurstöður. Þær sýna að þrátt fyrir erfitt árferði og mikið aðhald í rekstri hefur okkur tekist að halda uppi þjónustu sem notendur eru almennt sáttir við. Þetta má meðal annars þakka frábæru starfsfólki sem hefur lagt mikið á sig og verið tilbúið að laga sig að breyttum aðstæðum til að halda uppi sem bestri þjónustu,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún bendir á að framlög til Heilsugæslunnar voru lækkuð um tæpar 400 m.kr. á árunum 2009 til 2012, og lækka að auki um 100 m.kr. í ár. Ekki  síst í ljósi þess sé niðurstaða könnunarinnar ánægjuleg og viðurkenning á því góða starfi sem fram fer innan Heilsugæslunnar.

Góð þátttaka

Notendur sem komu á heilsugæslustöðvarnar í nóvember og desember voru beðnir um að taka þátt í könnuninni með því að rita nafn, netfang og símanúmer á blað sem lá frammi á stöðvunum. Í kjölfarið var könnunin send á þau netföng sem gefin voru upp og hringt í þá sem ekki höfðu gefið upp netfang. Spurningalistar voru sendir til 3807 notenda 15 heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 28. nóvember til 20. desember og fengust svör frá 3101 þannig að svarhlutfallið er 81.5%. 
Alls voru 10 spurningar lagðar fyrir þátttakendur og var meðal annars spurt um traust, ánægju og um upplifun notenda af þjónustunni. Einnig var spurt hvernig gengið hafi að fá hentugan tíma og hvað brýnast væri að bæta í þjónustunni. 

Á sama tíma og þrír af hverjum fjórum bera mikið traust til heilsugæslunnar segjast tæplega 4% bera lítið traust til hennar. Könnunin leiðir í ljós að traust til heilsugæslunnar eykst með aldrinum og karlar (81,2%) treysta henni almennt betur en konur (72,9%). Slétt 83% segjast ánægð með þjónustuna hjá sinni heilsugæslustöð en tæp 5% eru óánægð. Sem fyrr eru karlar (86,6%) ánægðari með þjónustuna en konur (81,5%) og ánægjan eykst með hækkandi aldri.  Alls telja 88,8% að mjög eða frekar vel hafi verið leyst úr þeirra málum í síðustu heimsókn,  en 3,6% segja að mjög eða frekar illa hafi verið leyst þeirra málum. Þegar notendur voru beðnir um að bera þjónustu heilsugæslustöðvanna saman við það sem var fyrir efnahagshrunið 2008 töldu 70,6% að þjónustan núna væri svipuð og hún var fyrir efnahagshrunið, 10,1% töldu hana nokkru eða miklu betri en þá en 19,3% sögðu hana nokkru eða miklu verri nú en þá.

Brýnast að bæta

Alls sögðu 69,3% að mjög eða frekar vel hafi gengið að fá hentugan tíma síðast þegar eftir því var leitað en 16,2% sögðu að það hefði gengið mjög eða frekar illa. Stytting biðtíma og auðveldara aðgengi að starfsfólki í síma eru þau mál sem helst brenna á notendum stöðvanna um þessar mundir. Þegar notendur voru beðnir um að nefna það sem brýnast væri að bæta nefndu flestir, eða 57,1%, að brýnast væri að stytta biðtíma og 31,1% að auðveldari þurfi að vera að ná sambandi við starfsfólk eða lækni í síma. Þá töldu 28,7% brýnast að auka rafræna þjónustu þar á meðal að hægt verði að bóka tíma rafrænt.