Opinn fyrirlestur um breytingaskeið kvenna

Mynd af frétt Opinn fyrirlestur um breytingaskeið kvenna
16.01.2023
Af hverju eru allir að tala um tíðahvörf og breytingaskeið kvenna? Hvaða áhrif hefur testósterón á kynlífið? Og er þetta bara þyngdaraukning og þras? Þessum spurningum og öðrum um breytingaskeiðið verður svarað á opnum fyrirlestri í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 19. janúar milli klukkan 17 og 19. 

Að fyrirlestrinum standa Læknafélag Íslands, Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Kvenheilsa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Feima, fræðslufélaga um breytingaskeið kvenna.

Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Louise Newson, sem er brautryðjandi í málefni breytingaskeiðsins í Bretlandi þar sem hún rekur víða móttökur fyrir konur á breytingaskeiði. Dr. Newson á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um málefnið undanfarin ár, bæði í Evrópu en einnig hér á Íslandi.

Auk Newson mun sænski kvensjúkdómalæknirinn Angelique Flöter Rådestad, sem hefur sérþekkingu á áhrifum testósteróns á konur, flytja erindi um áhrif testósteróns á kynlíf kvenna. Að lokum mun Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og yfirlæknir Kvenheilsu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, fjalla um þyngdaraukningu á breytingaskeiði.

Fundarstjóri er Steinunn Zophoníasdóttir, ljósmóðir hjá Kvenheilsu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stjórnarkona í Feimu.

Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn meðan húsrými leyfir. Vakin er athygli á að tveir af þremur fyrirlesurum flytja erindi sín á ensku.

Streymt verður frá fyrirlestrinum á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þar sem einnig má finna dagskrá viðburðarins. Þá bendum við einnig á Facebook-viðburð fyrirlestursins.