Fræðsla um breytingaskeið kvenna í hóptímum

Mynd af frétt Fræðsla um breytingaskeið kvenna í hóptímum
23.09.2022
Kvenheilsa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins býður upp á fræðslu um breytingaskeið kvenna í hóptímum sem haldnir verða reglulega næstu vikur.

Fræðslan er þegar farin í gang og er mikil ánægja með hana hjá þeim konum sem sótt hafa hóptímana. Búist er við mikilli ásókn í fræðsluna og þar sem framboð á tímum er takmarkað eru áhugasamar konur hvattar til að skrá sig sem fyrst.

Í hóptímunum er farið yfir bæði líkamlegar og andlegar breytingar sem konur geta upplifað á þessu lífsskeiði með það að markmiði að dýpka skilning og þekkingu kvenna á breytingaskeiðinu. Haft er að leiðarljósi að konur verði betur undirbúnar að takast á við þetta lífskeið, finni meiri vellíðan og ró og ekki síst að þær geti tekið upplýsta ákvörðun um sín næstu skref.

Í tímunum verða bjargráð sem konur geta nýtt sér til að bæta líðan og lífsgæði skoðuð ásamt fræðslu um meðferðarmöguleika. Þá verður farið yfir áhrif breytingaskeiðs á heilsu kvenna til framtíðar, nánd í parasamböndum og síðast en ekki síst jákvæðar hliðar breytingaskeiðsins. 

Hóptímarnir henta öllum konum sem langar til að fræðast um breytingaskeiðið. Í framhaldi af tímanum býðst áframhaldandi þjónusta sem skýrt verður frá í fræðslunni. Kvenheilsan mun einnig bjóða upp á hóptíma fyrir pör þar sem makar geta komið með.

Nánari upplýsingar um fræðsluna og skráning í hóptíma má finna hér.