Upplýsingamiðstöð HH fær styrki frá ráðuneyti

Mynd af frétt Upplýsingamiðstöð HH fær styrki frá ráðuneyti
09.09.2022
Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar fékk nýverið styrki að upphæð samtals sex milljónir króna frá heilbrigðisráðuneytinu til að vinna að leiðbeiningum fyrir fagfólk og þróa áfram vefinn Heilsuveru.

Upplýsingamiðstöðin er miðlæg þjónusta þar sem hjúkrunarfræðingar og fulltrúar svara símtölum og netspjalli sem berst í gegnum vefinn Heilsuvera ásamt því að vinna fræðsluefni fyrir vefinn. 

Heilbrigðisráðuneytið hefur nú styrkt tvö verkefni sem Upplýsingamiðstöðin  mun vinna að um þrjár milljónir króna hvort. Fyrra verkefnið snýst um að gera vinnuleiðbeiningar fyrir fagfólk í ráðgjöf til almennings sem verða aðgengilegar á Heilsuveru. 

Síðara verkefnið snýst um að tengja saman prófið „Hver er staðan?“ á Heilsuveru og „Mínar síður“ á vefnum. Þegar prófið verður komið í loftið getur fólk sem tekur það valið að deila sínum niðurstöðum með heilbrigðisstarfsfólki sem getur verið grundvöllur til að aðstoða fólk í átt til heilsusamlegra lífs.