Myndlistasýningin lífgar upp á heilsugæslustöðina

Mynd af frétt Myndlistasýningin lífgar upp á heilsugæslustöðina
09.03.2022
„Þetta er mín slökun,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur á Heilsugæslunni Glæsibæ. Myndlistasýning Önnu, Vorleysingar, stendur nú yfir í heilsugæslustöðinni.

„Þetta lífgar upp á veggina og vekur gleði meðal starfsfólks og þeirra sem eiga erindi hingað,“ segir Anna. Hún segir myndlistina hafa hjálpað henni mikið í því að takast á við álagið sem fylgt hefur heimsfaraldrinum. Hún kom sér upp aðstöðu fyrir listsköpunina í sumarbústað og fór þangað um helgar til að ná góðri slökun eftir vinnutörnina.

Anna hafði ekki teiknað eða málað frá því í skóla þegar hún fékk námskeið í afmælisgjöf árið 2016. Þar lærði hún að mála með olíulitum en fann sig ekki almennilega í því. Það var ekki fyrr en hún færði sig yfir í vatnslitina að hún virkilega fann sína hillu í myndlistinni. Þó Anna notist við vatnsliti kemur pensill hvergi nærri. Hún notar vatn, liti, úðabrúsa og plastkort til að vinna myndirnar.

Vorleysingar er fyrsta einkasýning Önnu, en hún hefur tekið þátt í tveimur samsýningum. Hugmyndin á bak við myndirnar eru vorleysingar, hlýnun jarðar og bráðnun jökla. Hún segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og þegar sé nokkur fjöldi verka seldur.

Myndlistasýningin Vorleysingar verður uppi í Heilsugæslunni Glæsibæ til 5. apríl næstkomandi.