Árangur af gæðaverkefni til að draga úr sýklalyfjaávísunum til ungra barna

Mynd af frétt Árangur af gæðaverkefni til að draga úr sýklalyfjaávísunum til ungra barna
03.09.2021

Ung börn á Íslandi hafa í mörg ár fengið ávísað mun meira af sýklalyfjum en í nágrannalöndum t.d. Svíþjóð.  Jafnframt hefur mun meira verið ávísað hérlendis af breiðvirkum sýklalyfjum fyrir börn.

Sýklalyf eru notuð til meðhöndla bakteríusýkingar og koma þannig í veg fyrir afleiðingar sýkinganna. Jafnframt eru sýklalyf gagnslaus þegar um veirusýkingar er að ræða. Heilbrigðisyfirvöld um allan heim reyna að minnka notkun sýklalyfja til að freista þess að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríustofna sem eru ónæmir fyrir lyfjunum. 

Árið 2017 var ýtt úr vör hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gæðaverkefni um skynsamlega ávísun sýklalyfja. Gefnar voru út þýddar og staðfærðar leiðbeiningar um meðferð algengra sýkinga utan spítala, þær kynntar víða og markmið sett.

Nýlega birtist grein í tímariti norrænna heimilislækna (Scandinavian Journal of Primary Health Care) um breytingar á sýklalyfjaávísun til barna 0-4 ára hjá læknum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á árunum 2016-2018. Greinin fjallar um rannsókn frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu á árangri gæðaverkefnisins. 

Rannsóknin sýnir að umtalsverðar breytingar hafa orðið á tímabilinu, bæði hvað varðar fækkun ávísana á breiðvirk sýklalyf en einnig á sýklalyfjaávísanir í heild. Niðurstöður eru því afar jákvæðar og sýna að við erum á réttri leið. 

Höfundar eru María Rún Gunnlaugsdóttur lyfjafræðingur og rannsóknarhópur sýklalyfjateymis Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH). Í rannsóknahópnum voru Kristján Linnet, Jón Steinar Jónsson og Anna Bryndís Blöndal en María Rún var meistaranemi hennar.