Athygli, Já takk! ADHD vitundarvika 23. - 30. september 2012

Mynd af frétt Athygli, Já takk! ADHD vitundarvika 23. - 30. september 2012
21.09.2012

Athygli, Já takk! er yfirskrift samevrópsku ADHD vitundarvikunnar 23.- 30. september 2012

Markmið ADHD vitundarvikunnar er að auka þekkingu almennings á ADHD, eyða fordómum, auka skilning og efla stuðning  við fólk með ADHD með opinskárri og skammarlausri umfjöllun. Auk þess eru veittar ýmsar upplýsingar um ADHD.

Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) veitir þjónustu vegna barna sem glíma við frávik í þroska eða hegðun. Meðal annars er sinnt greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna barna að 12 ára aldri, sem hafa hamlandi einkenni ADHD. Árlega greinast á ÞHS um 150 börn með hamlandi einkenni ADHD. Eftirfylgd felst m.a. í fræðslu og færniþjálfun foreldra, ráðlegginga til skóla, myndun þjónustuteymis og í sumum tilfellum lyfjameðferð barna.

Einnig er boðið upp á færniþjálfunarnámskeið fyrir börn greind með ADHD. Slík úrræði geta skilað góðum árangri og því er mikil sókn er í þau. Því miður er erfitt að anna eftirspurn.

Formleg setning vitundarvikunnar er föstudaginn 21. september kl. 14:00 i Tjarnarbíói en einnig má benda á málþingið: Hvað tekur við? Ungt fólk með ADHD og fræðsluskyldan sem haldið er föstudaginn 28. september.

Nánari upplýsingar um fjölbreytta dagskrá vikunnar eru á vef ADHD samtakanna.