Í vinnustofunni verður fjallað um fyrstu 1000 dagana með sérstaka áherslu á meðgönguna. Vanþekking á mikilvægi þessa tímabils getur haft alvarlegar afleiðingar fram á efri ár; fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið.
Graham mun kynna rannsóknir sem sýna að tímabilið frá getnaði til fæðingar hafi meiri áhrif á heilsu barnsins en áður hefur verið talið.
Þá mun hann fjalla um fyrstu árin og nauðsyn þess fyrir barnið og foreldrana að upplifa öryggi og tilfinningalegan stuðning. Hann mun sýna hvernig næm umönnun hefur áhrif á mótun heila og taugakerfis og leggur grunn að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Hann mun einnig fjalla um áhrif vanrækslu og áfalla á heila og líkama ungra barna og alvarlegar afleiðingar þess.
Á vinnustofunni mun Graham renna vísindalegum stoðum undir þá fullyrðingu að fjárfesting í fyrstu 1000 dögunum, tilfinningaleg og fjárhagsleg, sé arðbær fyrir viðkomandi börn, foreldra þeirra, skóla, samfélagið í heild og komandi kynslóðir.
Vinnustofan er ætluð heilbrigðisstarfsfólki, kennurum og öllum þeim sem starfa með börnum og foreldrum og láta sig hag þeirra varða.