Vinnustofa með Dr. Graham Music fyrir fagfólk um mikilvægi meðgöngunnar og fyrstu æviáranna

Vinnustofa um mikilvægi meðgöngunnar og fyrstu æviáranna

Í vinnustofunni verður fjallað um fyrstu 1000 dagana með sérstaka áherslu á meðgönguna.  Vanþekking á mikilvægi þessa tímabils getur haft alvarlegar afleiðingar fram á efri ár; fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið.

Graham mun kynna rannsóknir sem sýna að tímabilið frá getnaði til fæðingar hafi meiri áhrif á heilsu barnsins en áður hefur verið talið.

Þá mun hann fjalla um fyrstu árin og nauðsyn þess fyrir barnið og foreldrana að upplifa öryggi og tilfinningalegan stuðning. Hann mun sýna hvernig næm umönnun hefur áhrif á mótun heila og taugakerfis og leggur grunn að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Hann mun einnig fjalla um áhrif vanrækslu og áfalla á heila og líkama ungra barna og alvarlegar afleiðingar þess.

Á vinnustofunni mun Graham renna vísindalegum stoðum undir þá fullyrðingu að fjárfesting í fyrstu 1000 dögunum, tilfinningaleg og fjárhagsleg, sé arðbær fyrir viðkomandi börn, foreldra þeirra, skóla, samfélagið í heild og komandi kynslóðir.

Vinnustofan er ætluð heilbrigðisstarfsfólki, kennurum og öllum þeim sem starfa með börnum og foreldrum og láta sig hag þeirra varða.

 

Fyrirkomulag vinnustofunnar

Námskeiðið er haldið 31. október, 2025, Kl. 9:00 -16:00 og er haldið í sal Læknafélags Íslands, Hlíðarsmára 8

Þátttökugjald: 20.000 kr.
Kaffi og hádegismatur innifalið (stéttarfélagsstyrkur getur nýst á vinnusmiðjuna).

Að vinnusmiðjunni standa; Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Fræðslusjóður Miðstöðvar foreldra og barna og Grænahlíð, Fjölskyldumiðstöð

Skráningarpóstur er sendur á netfang þátttakanda við staðfestingu. Ef skráningarpóstur berst ekki, þarf að hafa samband á heilsubru@heilsugaeslan.is.

Um Graham Music:
Graham Music hefur langa reynslu sem meðferðaraðili, kennari, handleiðari og rithöfundur. Hann starfaði í 30 ár við Tavistock Centre í London þar sem hann gegndi stöðu klínísks stjórnanda barna- og fjölskyldumeðferðar. Graham hefur verið í fararbroddi við innleiðingu nýrra úrræða í bresku heilbrigðiskerfi, þar á meðal þjónustu í rúmlega 40 skólum fyrir börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Hann hefur í áratugi sérhæft sig í áfallavinnu. Graham kennir og handleiðir víða, bæði í Englandi og alþjóðlega, en hann leitast við að samtvinna nýjustu rannsóknir í taugavísindum og meðferðarvinnu. Nýjasta bók hans er Womb life (2024) en áður skrifaði hann Nurturing Natures: (2023, 2016, 2010), Respark (2022), Affect and Emotion (2022, 2001), Nurturing Children (2019), The Good Life: (2014) en auk þess ritstýrði hann ásamt öðrum From Trauma to Harming Others (2022). Graham kom til Íslands á vegum Miðstöðvar foreldra og barna í júní 2018.