Eflum færni

Þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD

Geðheilsumiðstöð barna býður börnum með ADHD að taka þátt í námskeiði til að efla færni á ýmsum sviðum. 

Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 9-12 ára og eru 6 börn á hverju námskeiði með tveimur þjálfurum.

Áhersla er lögð á að auka færni barna í félagslegum samskiptum, skapstillingu og sjálfsstjórn. 

Hópurinn hittist tvisvar í viku 1 1/2 tíma í senn, í 5 vikur (10 skipti alls) 

 

Áður en námskeið hefst, er haldinn kynningarfundur fyrir foreldra þar sem farið er nánar í fyrirkomulag námskeiðs.

  • Nánari upplýsingar má fá með því að senda fyrirspurn á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is

Umsjón með námskeiðinu hefur Dagmar Kr. Hannesdóttir, PhD, Sérfræðingur í klínískri barnasálfræði, sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna.

Verð vegna námskeiðsgagna: 4000 kr. 

 

 

Eftirfarandi þættir eru teknir fyrir með börnunum í litlum hópum:

  • Tilfinninga- og reiðistjórnun: Börnunum eru kenndar ýmsar aðferðir við að stilla tilfinningar sínar þegar það er ekki viðeigandi að sýna þær, m.a. reiðistjórnun í samskiptum. Þar að auki læra þau um tilfinningar, svipbrigði og áhrif aðstæðna á líðan þeirra og annarra. Sú þekking mun nýtast þeim í samskiptum við aðra.
  • Félagsfærni: Farið er yfir atriði eins og hvernig og hvenær er viðeigandi að hefja samskipti við aðra, samskiptareglur og aukna færni í að setja sig í spor annarra.
  • Sjálfsstjórn: Kenndar eru aðferðir sem nýtast við að hamla hvatvísi og auka stjórn á eigin hegðun.  
  • Vandamálalausnir: Farið er yfir aðferðir við að leysa ýmis vandamál sem upp koma á skynsamlegan hátt. Í því felst að finna valmöguleika í stöðunni, hugsa um mögulega útkomu hvers valmöguleika og velja bestu lausnina til að ná ákveðnu markmiði.
  • Umbunarkerfi: Hvert barn vinnur sér inn í hverjum tíma spilapeninga sem það fær fyrir að vinna verkefni og fara eftir reglum á stöðvunum. Í lok hvers tíma fá börnin að fara í Snillingabúðina þar sem þau geta keypt fyrir spilapeningana límmiða, bolta, tattoo, slím, armbönd, fótboltamyndir, og margt fleira, en einnig safnað upp í stærri vinninga eins og bíómiða. Í lok námskeiðsins teljum við saman öll stigin sem krakkarnir hafa náð að safna sér inn í sameiningu og höldum pizza partý í síðasta tímanum ef þau hafa náð markmiðinu.