Snillingarnir

Hópnámskeið fyrir börn með ADHD

Snillinganámskeiðið er nú hluti af rannsókn í samstarfi Geðheilsumiðstöðvar barna og Sálfræðideildar Háskóla Íslands fyrir börn í 4. til .7.bekk sem eru með ADHD, að taka þátt í námskeiði til að efla færni á ýmsum sviðum. 

Þeir þátttakendur sem hafa áhuga á að skrá sig í rannsóknina og uppfylla skimunar skilyrði verður úthlutað plássi í fimm vikna úrræði. 

Annað hvort í:

  • Snillingunum (sérhönnuðu hópnámskeiði fyrir börn með ADHD) eða
  • Krakkaráðgjöfinni (einstaklingsráðgjöf í tilfinningastjórnun, félagsfærni og lausnaleit fyrir börn með ADHD). 

Sérhæfð inngrip fyrir börn og fjölskyldur barna með ADHD eru í stöðugri þróun og því er mikilvægt að rannsaka hvaða úrræði virka vel, hvað virkar best fyrir hvern og hvers vegna. 

Rannsókninni er stýrt af dr. Dagmar Kr. Hannesdóttur, barnasálfræðingi og lektor við Háskóla Íslands í samstarfi Sálfræðideildar HÍ og Geðheilsumiðstöðvar barna (GMB) hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Áhugasamir geta skráð sig á póstlista fyrir rannsóknina með því að senda póst á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is

Nánari umfjöllun um rannsóknina:

Efni námskeiðssins

Eftirfarandi þættir eru teknir fyrir með börnunum í litlum hópum:

Tilfinninga- og reiðistjórnun:
Börnunum eru kenndar ýmsar aðferðir við að stilla tilfinningar sínar þegar það er ekki viðeigandi að sýna þær, m.a. reiðistjórnun í samskiptum. Þar að auki læra þau um tilfinningar, svipbrigði og áhrif aðstæðna á líðan þeirra og annarra. Sú þekking mun nýtast þeim í samskiptum við aðra.

Félagsfærni: Farið er yfir atriði eins og hvernig og hvenær er viðeigandi að hefja samskipti við aðra, samskiptareglur og aukna færni í að setja sig í spor annarra.

Sjálfsstjórn:
Kenndar eru aðferðir sem nýtast við að hamla hvatvísi og auka stjórn á eigin hegðun.  

Vandamálalausnir:
Farið er yfir aðferðir við að leysa ýmis vandamál sem upp koma á skynsamlegan hátt. Í því felst að finna valmöguleika í stöðunni, hugsa um mögulega útkomu hvers valmöguleika og velja bestu lausnina til að ná ákveðnu markmiði.

Umbunarkerfi:
Hvert barn vinnur sér inn í hverjum tíma spilapeninga sem það fær fyrir að vinna verkefni og fara eftir reglum á stöðvunum. Í lok hvers tíma fá börnin að fara í Snillingabúðina þar sem þau geta keypt fyrir spilapeningana límmiða, bolta, tattoo, slím, armbönd, fótboltamyndir, og margt fleira, en einnig safnað upp í stærri vinninga eins og bíómiða. Í lok námskeiðsins teljum við saman öll stigin sem krakkarnir hafa náð að safna sér inn í sameiningu og höldum pizza partý í síðasta tímanum ef þau hafa náð markmiðinu.