Almennar upplýsingar

icon

Hafa sambandMilli 8:00 og 16:00 er hægt að hringja í síma 513-6050 og skilja eftir skilaboð til teymisins. Hringt er til baka við fyrsta tækifæri.
icon

StaðsetningHeilaörvunarmiðstöð er staðsett á Heilsugæslunni Mosfellsumdæmi og móttakan þar annast símsvörun.

Um HÖM

Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM) er ný meðferðareining innan Geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

 

Þar nú er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi. Hugsanlega fjölgar meðferðarúrræðum þar síðar.

 

 

Á Heilaörvunarmiðstöð starfar fagfólk sem fengið hefur sérstaka þjálfun í meðferð með TMS-tækjum. Nú eru geðlæknir, hjúkrunarfræðingur og taugalífeðlisfræðingur starfsmenn HÖM.

 

HÖM hefur aðsetur á nýrri og glæsilegri Heilsugæslustöð í Mosfellsumdæmi Sunnukrika 3, 270 Mosfellsbæ.

Fyrir hverja?

Heilaörvunarmiðstöð (HÖM) þjónustar einstaklinga með meðferðarþrátt þunglyndi (unipolar þunglyndi) sem vísað er frá geðlæknum.

Viðtöl

Til að byrja með verður ekki boðið upp á viðtöl við starfsmenn Heilaörvunarmiðstöðvar. Við vísum á Geðheilsuteymi HH eða tilvísandi geðlækni.

Hvað er TMS?

TMS er skammstöfun á því sem á ensku nefnist Transcranial Magnetic Stimulation sem þýða mætti sem segulörvunarmeðferð á heila.


TMS-meðferð er ekki ífarandi sem þýðir að meðferðin krefst hvorki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Skjólstæðingur er vakandi meðan á meðferð stendur og getur haldið sína leið að meðferð lokinni.


TMS-meðferð beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffærakerfi, ólíkt t.d. virkni margra lyfja.  


TMS-meðferð byggir á endurtekningu og krefst þess að skjólstæðingar mæti í meðferð alla virka daga vikunnar í fjórar til sex vikur. Sumir finna fljótt fyrir breytingu á líðan á meðan áhrifin koma seinna hjá öðrum.  

Aukaverkanir

Aukaverkanir af TMS-meðferð eru bæði fáar og mildar þótt alvarlegri aukaverkanir þekkist. Þegar líður á meðferðina er líklegt er dragi úr þeim.

 

Helst má nefna:

 • Höfuðverk
 • Óþægindi í húð á meðferðarstað  
 • Stingir, krampar eða kippir í andlitsvöðvum (á meðan meðferð stendur)

 

Sjaldgæfar en þekktar aukaverkanir:

 • Krampar  
 • Oflæti, einkum hjá fólki með geðhvarfasýki
 • Heyrnarskerðing ef heyrnarhlífar eru ekki notaðar

Frábendingar

Þótt TMS-meðferð henti flestum eru nokkrar þekktar frábendingar. Vegna sterks segulsviðs sem myndast við TMS-meðferð er meðferðin ekki ráðlögð þeim sem hafa ígrædda hluti eða tæki sem segulmagn virkar á. 


Ráðfærðu þig við lækni eða hjúkrunarfræðing ef eitthvað af eftirtöldu á við:

 • ef þú ert þunguð eða þungun er ráðgerð
 • ef þú tekur inn lyf; bæði lyfseðilskyld og ólyfseðilskyld lyf, náttúrulyf, vítamín eða fæðubótarefni
 • ef þú hefur sögu um krampa eða fjölskyldusögu um flogaveiki
 • ef þú hefur fengið ígrædd tæki/hluti s.s.:
  • hvers konar málmígræðslur í höfuð eru alger frábending
  • slagæðagúlpa-klemmur eða hefti
  • ígrædd tæki til taugaörvunar
  • ígrædd raftæki svo sem hjartagangráður og lyfjabrunnar
  • ígrædd rafskaut
  • ígrædd heyrnartæki
  • hvers konar ígrædd segulmögnuð tæki eða hlutir
  • byssukúlur eða leyfar af þeim
  • önnur málmtæki eða ígræddir hlutir í líkamanum

Tilvísanir

Tekið er við tilvísunum frá geðlæknum.


Geðlæknir sendir tilvísun rafrænt í gegnum Sögu. 

 • Þegar sent er innan HH er notað: Beiðni um meðferð (flýtitexti ) 
 • Þegar send er rafræn tilvísun milli stofnanna er notað: Tilvísun (flýtitexti )  

Aðrir geðlæknar nota þetta eyðublað.       

Mikilvægt er að tilvísun sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu til hennar. Ófullnægjandi tilvísun  verður endursend. 

 

Fyllið umsóknareyðublað út rafrænt, vistið og sendið í gegnum örugg gagnaskil. Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki.

Ef ekki er hægt að nota gagnaskil, er eyðublaðið fyllt út rafrænt, prentað út og sent í ábyrgðarpósti til Heilaörvunarmiðstöðvarinnar.

 

Fyrirspurnir í síma 513-6380.

Fyrir hverja er þjónustan?

Til að byrja með er þjónustan ætluð einstaklingum sem þjást af miðlungs- til alvarlegu meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi (Treatment Resistant Depression).  

 

Meðferðarþrátt þunglyndi er skilgreint þannig að sjúklingur hefur reynt að minnsta kosti þrjú mismunandi þunglyndislyf í mismunandi lyfjaflokkum í nægilega langan tíma og skammti.  

Útskrift

Við meðferðarlok eða þegar sýnt þykir að meðferð hafi borið viðhlýtandi árangur er skjólstæðingi tilkynnt um niðurstöðu og útskrift. Margt bendir til að þeir sem á annað borð upplifa jákvæð áhrif TMS-meðferðar hafi ábata af endurtekinni meðferð ef fyrri einkenni þunglyndis gera vart við sig. Í öllum slíkum tilvikum verður tilvísun að koma frá geðlækni viðkomandi.  

 

Við útskrift er skjólstæðingi vísað aftur til tilvísandi geð- eða heimilislæknis. 

HÖM og TMS

Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM) er ný meðferðareining innan geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Til að byrja með verður boðið upp á svo kallaða TMS-meðferð þar sem TMS stendur fyrir Transcranial Magnetic Stimulation sem gæti útlagst sem heilaörvun með rafsegli.  

Framtíðin heilaörvunar er björt og ekki útilokað að fleiri sambærileg meðferðarúrræði verði í boði á næstu árum.  

Um teymið

magnifier
StarfsmennStarfsheitiSímiNetfang
Dagur BjarnasonYfirlæknir513-6050
Jón Gauti JónssonVerkefnastjóri513-6050
Nicolas Pétur BlinSérfræðingur513-6050