Námskeið um jákvæð samskipti innan fjölskyldna

Mynd af frétt Námskeið um jákvæð samskipti innan fjölskyldna
13.10.2022

Foreldrum barna á aldrinum eins til fimm ára stendur til boða að sækja forvarnarnámskeiðið Ertu að tengja, þar sem fjallað er um jákvæð samskipti innan fjölskyldunnar. Það er Geðheilsumiðstöð barna sem stendur fyrir námskeiðinu.

Á námskeiðinu fá foreldrar verkfæri til að styrkja sjálfa sig í foreldrahlutverkinu, efla eigið tilfinningalæsi og tilfinningalæsi barna sinna. Þar verður meðal annars farið yfir mikilvægi fyrstu tengsla, hvernig hægt er að lesa í hegðun og líðan barna og bregðast við með gagnlegum aðferðum.

Námskeiðið er ætlað foreldrum barna sem fædd eru á árabilinu 2017 til 2021. Hvert námskeið er alls fimm klukkustundir með tveimur hóptímum og eftirfylgdarviðtali.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru þær Ásgerður Arna Sófusdóttir hjúkrunarfræðingur og Daðey Albertsdóttir sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna. 

Uppfært 21. október 2022: Uppbókað er á námskeið í nóvember en bætt hefur verið við námskeiðum í janúar. Þrjú af þeim námskeiðum verða fjarnámskeið til að koma til móts við óskir foreldra sem eiga erfitt með að komast á staðinn.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem einnig er hægt að skrá sig á námskeiðið.