Fundur um skimun fyrir leghálskrabbameini

Mynd af frétt Fundur um skimun fyrir leghálskrabbameini
08.10.2019
Samkvæmt tillögum skimunarráðs hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini verði á vegum heilsugæslunnar. 

Til að undirbúa það var haldinn fundur á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) um nýjustu rannsóknir á þessu sviði og hvernig er best að standa að skimun fyrir leghálskrabbameini. 

Fyrirlesarar á fundinum voru Kristján Oddsson frá HH, dr. Philip Castle prófessor við Albert Einstein College of Medicine, dr. María E. Fernández prófessor við Texas Háskóla í Houston og dr. Thor Aspelund prófessor við Háskóla Íslands og formaður skimunarráðs. 

Kristján Oddsson er svæðisstjóri og fagstjóri lækninga Heilsugæslunni Hamraborg. Hann fjallaði um hnignun skimunar hér á landi, óásættanlega þátttöku miðað við viðmið WHO, aukna tíðni leghálskrabbameins en hún er í dag helmingi hærri en viðmið WHO og aukna dánartíðni af völdum leghálskrabbameins sem hefur hækkað um 50% á sl. 10 árum. Bent var á mikilvægar leiðir til úrbóta.

Dr. Castle er heimsþekktur sérfræðingur á sviði skimunar fyrir leghálskrabbameini og hefur ritað fjölda vísindagreina í ritrýnd fagtímarit og verið ráðgjafi heilbrigðisyfirvalda í mörgum löndum, m.a. Bandaríkjunum og Noregi. Hann fjallaði almennt um kosti og galla skimunar og mikilvægi HPV frumskimunar ásamt mikilvægi gæðaeftirlits.  

Dr. María E. Fernández er einnig vel þekkt fyrir rannsóknir sínar á svið breytingastjórnunar og hefur ritað fjölda greina í ritrýnd fagtímarit og starfað með ýmsum heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum og Evrópu, m.a. WHO Europe. Hún fjallaði um ýmsar aðferðir til að ná árangri í breytingastjórnun og þætti sem hafa áhrif á hana. 

Dr. Thor Aspelund gerði grein fyrir tillögum skimunarráðs um breytt skipulag, stjórn og framkvæmd skimana hér á landi og hversu mikilvægt sé að tryggja gæði og eftirlit til að meta gagnsemi skimunar.  

Fundurinn var ákaflega fróðleikur og endaði á líflegum og gagnlegum umræðum um efnið, þar sem kom m.a. fram að skimun fyrir krabbameini fyrir 25 ára aldur gerði meiri skaða en gagn líkt og skimun fyrir brjóstakrabbameini hjá 40 ára konum.  

Ómetanlegt er fyrir undirbúning HH að taka við framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini 1. janúar 2021 að hafa fengið hingað til okkar þessa sérfræðinga og mun það nýtast vel í því starfi sem er fram undan.  

Á myndinni eru frá vinstri: Kristján Oddsson, Thor Aspelund, Óskar Reykdalsson forstjóri HH, Philip Castle og María E. Fernández