Netspjall Heilsuveru verður opið kl. 8-22 alla daga

Mynd af frétt Netspjall Heilsuveru verður opið kl. 8-22 alla daga
03.06.2020

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) 30 miljóna króna fjárveitingu á ársgrundvelli í tvö ár til að hafa netspjallið netspjall Heilsuveru opið alla daga vikunnar frá kl. 8:00-22:00. Að loknu tveggja ára tímabili verður þjónusta netspjallsins metin. 

Markmið netspjallsins er að vera vegvísir i heilbrigðiskerfinu og þannig auðvelda fólki að hlúa að eigin heilbrigði með því að afla sér upplýsinga og/eða fá ábendingar um viðeigandi heilbrigðisþjónustu. 

Þegar COVID-19 stóð sem hæst var netspjallið ómetanlegt í upplýsingagjöf til almennings. Fram að því var netspjallið opið í fjóra til átta stundir á virkum dögum en opnunartíminn var tímabundið lengdur og fleiri hjúkrunarfræðingar kallaðir til vegna ástandsins.

Þegar spurningum vegna COVID-19 fækkaði, fjölgaði sömuleiðis spurningum um annað tengt heilbrigði og heilbrigðiskerfinu. Ljóst var að mun fleiri vissu nú af þessum möguleika til að leita upplýsinga. Margir höfðu samband á kvöldin. Af þessum sökum var talið æskilegt að framlengja þennan lengri opnunartíma.

Í síðastliðinni viku nýttu 432 einstaklingar sér netspjallið og 96.5% þeirra voru  ánægðir með þjónustuna.

Við hjá HH fögnum því að geta haldið áfram að veita þessa þjónustu sem landsmenn kunna að meta.