Á myndinni eru algengustu leitarorðin á vefnum heilsuvera.is árið 2020.
Þrátt fyrir að leitarorð tengd COVID-19 skori hátt er fólk enn líka að takast á við venjulegri vandamál. Við í heilsugæslunni vitum að hægðatregða, niðurgangur, útbrot og sveppasýkingar hafa neikvæð áhrif á lífsgæði. Mikilvægt er að fræðsla um þessi vandamál eins og önnur sé aðgengileg.
Grátur og brjóstagjöf eru líka ofarlega á orðalistanum en erfiðleikar varðandi þessa þætti geta varpað skugga á fyrstu mánuðina í foreldrahlutverkinu. Lús og njálgur eru svo enn að gleðja foreldra leik- og grunnskólabarna, þó líklegt sé að tíðni árið 2020 sé lægri með aukinni fjarlægð.
Sífellt er verið að uppfæra efni og bæta við, en á fjórða tug efnisflokka bættust við á árinu 2020. Þar á meðal er umfjöllun um fleiri sjúkdóma.
Flestir, eða 175.00, skoðuðu COVID-19 upplýsingasíðuna. Annars dreifist skoðun efnis vel og fólk er greinilega að kynna sér fjölbreytta hluti varðandi heilsu og líðan. Það er ánægjulegt en eitt af markmiðunum er að hjálpa fólki að efla eigið heilbrigði.
Stökk varð í notkun Netspjalls Heilsuveru og fjöldi spjalla margfaldaðist.
Árið 2020 voru um 70 þúsund netspjöll. Til samanburðar voru tæplega þrjú þúsund spjöll árið 2019.
• Samtals var spjallað í 13.668 klukkustundir eða 1,56 ár
• Meðalbiðtími eftir svari var 115 sekúndur
• 94% ánægja hjá þeim sem gáfu endurgjöf
• 76% fengu úrlausn í spjallinu að eigin mati
Það voru 4,1 milljónir heimsókna á heilsuvera.is 2020.