Mislingar greindir á Íslandi

Mynd af frétt Mislingar greindir á Íslandi
22.03.2017

Mislingar eru veirusjúkdómur sem er mjög smitandi. Bólusetning hefst við 18 mánaða aldur, og eru yngri börn sem og óbólusett börn og eldri einstaklingar ekki varin gegn smiti. Allt að 95% barna hér á landi eru bólusett gegn mislingum ásamt rauðum hundum og hettusótt, sem er eitt hæsta hlutfall bólusettra barna í Evrópu. Því er ekki búist við að mislingar geti náð mikilli útbreiðslu og valdið stórum faröldrum hér á landi.

Dagana 18.-19 mars 2017 var barn á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins sem reynist vera með mislinga. Barnið kom á Heilsugæsluna Mosfellsumdæmi 15. og 16. mars.

Mögulegt er að þú og/eða þitt barn hafi verið útsett fyrir mislingum. Smitleiðin er með veirum í loftinu. Meðgöngutíminn (tíminn frá því barnið var útsett þangað til það fær einkenni) eru oftast 10-12 dagar.

Einkennin byrja oftast með „flensulíkum“ einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Veikur einstaklingur smitar aðra um 1-2 dögum áður en einkenni koma fram og allt að 10 dögum eftir fyrstu einkenni.

Alvarlegir sjúkdómar eins og niðurgangur, eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, og í stöku tilfellum getur heilabólga sést sem afleiðing mislinga.

Ekki er ástæða til að láta skoða einkennalaus börn.

Ef þú eða barn þitt sem komust í snertingu við ofangreint barn verðið veik á næstu dögum með öndunarfæraeinkennum, hita og útbrotum getur verið um mislinga að ræða. Mikilvægt er að hafa í huga að veikur einstaklingur getur smitað aðra einstaklinga, og því mikilvægt að vera heima meðan veikindin ganga yfir.

Ekki er til sértæk meðferð gegn mislingum.

Heilsugæslustöðvar bjóða upp á ráðgjöf og bólusetningu ef þörf er á. Nægilegt bóluefni er til á öllum stöðvum.

Engin ástæða er til að flýta almennt 18 mánaða bólusetningu gegn mislingum vegna þessa eina tilfellis.

Einu ástæður til að flýta 18 mánaða bólusetningunni eru hjá eftirfarandi:

  • Börnum 9 mánaða eða eldri sem á undangengnum þremur dögum hafa umgengst einstakling með staðfesta mislinga.
  • Börnum 9 mánaða eða eldri sem líklega munu komast í tæri við mislinga t.d. vegna ferðalaga.
  • Ef fleiri mislingatilfelli fara að greinast hér á landi þá getur þurft að hefja bólusetningu hjá yngri börnum en það verður þá tilkynnt sérstaklega.  

Ef barn yngra en 12 mánaða er bólusett þá þarf það engu að síður að fá bólusetningu við 18 mánaða og 12 ára aldur. Ekki er ráðlagt að bólusetja börn yngri en 9 mánaða vegna þess að litlar líkur eru á að bóluefnið virki hjá svo ungum börnum.

Ef þörf er á að láta skoða barnið eða einhverjar spurningar vakna, getur þú haft samband við vakthafandi barnalækni Barnaspítalans í síma 543-1000. Alls ekki koma með barn sem gæti verið með mislinga beint á bráðamóttökuna án þess að hringja á undan.