Innleiðing Jafnlaunavottunar hjá HH

Mynd af frétt Innleiðing Jafnlaunavottunar hjá HH
15.06.2018

Þann 1. janúar sl. tóku gildi lög nr. 56/2017 um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Breytingin á við um 19. grein laganna sem fjallar um launajafnrétti.. Með þeim er fyrirtækjum og stofnunum skylt að sýna fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf.

Jafnlaunastaðallinn, ÍST 85, er lagður til grundvallar jafnlaunavottun samkvæmt lögunum. Markmið staðalsins er að auka gagnsæi og gæði í launaákvörðunum og auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Grunnforsenda staðalsins er að einstaklingar hjá sama atvinnurekanda njóti sambærilegra kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Sérstakur vottunaraðili mun árlega gera úttekt til staðfestingar á því að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins. 

Sólveig Lilja Einarsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri jafnlaunavottunar hjá HH og mun hún stýra mótun og innleiðingu Jafnlaunakerfisins í samvinnu við stýrihóp sem stofnaður verður innan HH. Samhliða mun hún stýra þeim umbótaverkefnum sem skapast í ferlinu og leiða vottunarferlið. Boðað verður til sérstakra kynningarfunda undir lok sumars þar sem Jafnlaunavottunin verður kynnt frekar 

Sólveig Lilja  er viðskiptafræðingur, cand oceon frá HÍ, MBA frá HR og er að ljúka Master í Mannauðsstjórnun frá HÍ. Hún hefur mikla stjórnunarreynslu af fjármála- og ferðamálamarkaðinum en hún var síðast framkvæmdarstjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Sólveig Lilja hefur mikla alhliða reynslu af verkefnastjórn, mannauðs- og gæðamálum sem og mótun og innleiðingu nýrra verkefna.  

Við bjóðum Sólveigu Lilju velkomna til starfa hjá HH.