Uppeldishlutverk á óvissutímum

Mynd af frétt Uppeldishlutverk á óvissutímum
03.09.2020

Fyrir foreldra er uppeldi eitt mikilvægasta verkefni fullorðinsáranna. Það er líka á hreinu að þetta er vandasamt og krefjandi verkefni og að því fylgir mikil ábyrgð. En á sama tíma má ekki gleyma að uppeldishlutverkið er án efa eitt það skemmtilegasta og mest gefandi sem við tökum okkur fyrir hendur. 

Fyrir börnin er uppeldi ekki síður mikilvægt. Hvernig foreldrarnir haga uppeldinu, hvaða aðferðum þeir beita og hvaða fordæmi þeir gefa dagsdaglega getur skipt sköpum um hvernig líf og hagur barnsins verður í framtíðinni. Fleira í nánasta umhverfi barnsins, svo sem almennur aðbúnaður, fjölskyldugerð, heilsa og samskipti á heimili, hefur líka áhrif á velferð þess.

Mótar þegna framtíðar 

Fyrir samfélagið í heild skiptir ákaflega miklu máli hvernig börn eru alin upp. Uppeldisvenjur dagsins í dag hafa mótandi áhrif á þegna framtíðarinnar, á hegðun þeirra, líðan, viðhorf, færni og velgengni. Það hefur líka áhrif á hvernig foreldrar þessi börn verða síðar, og svo koll af kolli! Sem foreldrar höfum við því ómæld áhrif, ekki bara á framtíð barna okkar, heldur á þjóðfélagið sem við búum í, í nútíð og framtíð. 

Þótt foreldrar gegni langstærsta hlutverkinu í uppeldi barna sinna eru þó fleiri sem koma að því verki. Ömmur, afar, systkini og fleiri ættingjar hafa áhrif, leik- og grunnskólar sinna ákveðnum þáttum uppeldis og ýmsar aðrar stofnanir samfélagsins innan félags-, mennta- og heilbrigðiskerfis koma að uppeldi með beinum hætti eða óbeint með fræðslu, ráðgjöf og stuðningi. Þá hafa alls konar fjölmiðlar og netmiðlar áhrif á börn og sem sennilega fara vaxandi. Það er því ljóst að útkoman fyrir hvert barn byggir á samspili margra þátta. Því er ákaflega mikilvægt að á öllum vígstöðvum sé vandað til verka og að samræmi sé á milli aðgerða hinna ýmsu aðila. Það er þó aldrei hægt að taka frá foreldrum þá sérstöku ábyrgð sem þeir bera á að sinna börn­um sín­um á ást­rík­an hátt, vera þeim góð fyr­ir­mynd, kenna þeim, leiðbeina og vernda gegn hætt­um.

Uppeldisnámskeið eru góð 

Engin tvö börn eru eins og ekki er hægt að gefa eina algilda uppskrift að því hvernig uppeldi á að vera. Hins vegar er til vitneskja, byggð á vönduðum rannsóknum, sem segir okkur að sumar aðferðir eru líklegar til að skila góðum árangri og aðrar leiðir eru gagnslitlar, óheppilegar eða geta skert möguleika barna. Það er alls ekki sjálfgefið að foreldrar hafi þannig þekkingu til að bera og engir leiðarvísar fylgja börnum við fæðingu. Á móti er þó víða góð ráð að hafa og má til dæmis benda á ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar, fræðslu á heilsuvera.is og sérstök uppeldisnámskeið. Í gildandi Lýðheilsustefnu er sérstaklega mælt með foreldranámskeiðinu Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar , sem rekið er á vegum heilsugæslu.
Að lokum: Gott samstarf og samræmd vinnubrögð auka líkurnar á góðum árangri í öllum samstarfsverkefnum – líka uppeldi! 

Höfundur er Gyða Haraldsdóttir, sálfræðingur og forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.