Skimun fyrir krabbameini í leghálsi – spurningum kvenna svarað

Mynd af frétt Skimun fyrir krabbameini í leghálsi – spurningum kvenna svarað
08.03.2021

Hér höldum við áfram að svara algengum spurningum kvenna um skimanir fyrir leghálskrabbameini.Við bendum líka á fyrri svör okkar um sama efni.

Á netspjalli á heilsuvera.is er boðið upp á sérstaka svarþjónustu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Nánari upplýsingar um skimun eru á síðum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hér á vefnum.

Hvernig fer sýnatakan fram á heilsugæslum og er hægt að fara eitthvað annað?

Á heilsugæslum taka ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sýnin. Þjónustan er persónuleg og konan afklæðist inn á skoðunarstofunni þar sem hún er ein með ljósmóður/hjúkrunarfræðingi. Þetta fyrirkomulag hefur verið á heilsugæslustöðvum úti á landi í nokkur ár með góðum árangri. Heimilislæknar taka ekki leghálssýni vegna skimunar.

Ef konur kjósa geta þær farið til kvensjúkdómalæknis. Þar gildir allt önnur verðskrá. 

Hvenær má búast við niðurstöðu rannsóknar

Samkvæmt samningi við Hvidovre sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn er kveðið á um að öllum rannsóknum skal svarað innan þriggja vikna frá því sýni berst rannsóknarstofunni. 

Áætlað er að senda sýni til rannsóknar flesta eða alla mánudaga og má reikna með meirihluti niðurstaðna liggi fyrir innan 10 daga frá því sýni berst rannsóknarstofunni. Embætti landlæknis skráir niðurstöðuna í skimunarskrá embættisins og inn á island.is og síðar á árinu 2021 á Heilsuvera.is. 

Hvernig eru leghálssýni rannsökuð?

Notast verður við tvær rannsóknaraðferðir við skimun fyrir krabbameini í leghálsi. Hefðbundin frumurannsókn og HPV greining. Báðar rannsóknaraðferðir eru vel reyndar og góðar aðferðir til að skima fyrir leghálskrabbameini. Báðar aðferðirnar byggjast á því að frumusýni er tekið frá leghálsinum. Mismunurinn felst þannig ekki í því hvernig sýnið er tekið heldur hvernig það er rannsakað.

  • Hefðbundin frumurannsókn er huglæg og byggist á því að sérhæfður frumurannsakandi rannsakar frumusýni í smásjá. Næmi rannsóknarinnar er um 50%. 
  • HPV greining er hlutlæg rannsóknaraðferð sem greinir hvort HPV veirur eru í leghálssýninu. Næmi rannsóknarinnar er um 95%. 

Hvernig verða sýni rannsökuð sem voru HPV jákvæð en ekki full rannsökuð?

Allar konur sem fengu HPV jákvæða niðurstöðu í sýnum sem tekin voru á vegum Krabbameinsfélagsins frá 9. nóvember 2020, eiga að hafa fengið bréf varðandi niðurstöðuna og hún skráð á island.is og þeim er boðið að taka nýtt sýni. Ef bréf barst ekki eða niðurstaða ekki skráð á island.is er viðkomandi beðin um að hafa samband við SKS.

Þessi sýni verða rannsökuð sem skimunarsýni samkvæmt skimunarleiðbeiningum Embættis landlæknis. Það þýðir að þau eru full rannsökuð sem er ítarlegri rannsókn heldur en ef þau væru rannsökuð sem eftirlitssýni. Þannig er reynt að sjá til þess að konan njóti vafans vegna nýrra skimunarleiðbeininga og rannsóknaraðferða.  

Hvað eru skimunarleiðbeiningar 

Skimunarleiðbeiningar eru hornsteinn og leiðarvísir allra þátta skimunar. Í áliti Skimunarráðs frá október 2020 kemur m.a. fram að sérþekking á skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum er takmörkuð á Íslandi og erfitt að finna gagnreynd læknisfræðileg rök fyrir því að sérstaða Íslands kalli á sérstakar íslenskar leiðbeiningar um skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi. 

Skimunarráð lagði til að heilbrigðisyfirvöld leituðu eftir formlegu samstarfi við nágrannaríki þar sem byggt væri á sameiginlegum leiðbeiningum um skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi. Landlæknir lagði til að hér á landi yrði fylgt dönskum skimunarleiðbeiningum.

Skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis má nálgast á heimasíðu embættisins

Af hverju er hefðbundin frumurannsókn hjá konum á aldrinum 23-29 ára?

Ástæða þess að ekki er enn þá mælt með HPV frumskimun hjá konum yngri en 30 ára er hátt algengi HPV sýkinga í þessum aldurshópi. HPV frumskimun myndi valda aukinni tíðni falskt jákvæðra niðurstaðna og auka óþarfa eftirlit og meðferðir því ekki allar HPV sýkingar valda frumubreytingum. Um 90% allra HPV sýkinga hverfa á 2-3 árum.  

Á næstu árum fjölgar konum sem hafa verið bólusettar fyrir HPV og þá er ekki ólíklegt að hægt verði að nýta HPV frumskimun hjá konum yngri en 30 ára. 

Af hverju er HPV frumskimun hjá konum á aldrinum 30-64 ára?

Niðurstöður fjölþjóðlegra rannsókna hafa sýnt að HPV rannsókn á fimm ára fresti er jafn árangursrík eða árangursríkari aðferð en hefðbundin frumurannsókn á þriggja ára fresti til að skima fyrir krabbameini í leghálsi. Þess vegna er mælt með leghálsskimun á fimm ára fresti hjá konum á aldrinum 30-64 ára en tíðni HPV sýkinga minnkar hratt eftir þrítugt sem gerir það mögulegt að nýta HPV rannsókn sem hefur hátt næmi (95%). 

Af hverju líður svona langt á milli skimana?

Leghálskrabbamein tekur oftast langan tíma að myndast. Þegar breytingar finnast er sem betur fer oftast mjög langt í að þær valdi krabbameini
Ef einhverjar breytingar finnast fer annað verklag í gang og þá eru konur í eftirliti þar styttri tími líður á milli. Ef hugsanleg einkenni koma fram utan skimana geta konur leitað til heimilislæknis og eða kvensjúkdómalæknis. Konur með einkenni eiga ekki að bíða eftir skimun.

Eru stundum frumubreytingar þó að sýni sé HPV neikvætt?

Já, því það eru um 40 HPV veirur sem geta valdið frumubreytingum í leghálsi en um 14 þeirra eru krabbameinsvaldandi og það er bara rannsakað fyrir þeim í HPV rannsókn. Frumubreytingar við sem ekki eru af völdum HPV krabbameinsvaldandi veirum eru nær undantekningarlaust lággráðu frumubreytingar. 

Af hverju er konum er boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23 til 29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30 til 65 ára?

Skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis ráðleggja að konum á aldrinum 23-29 ára sé boðin skimun á þriggja ára fresti og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30-64 ára vegna þess að þá eru mestar líkur á að hámarka gagnsemi og lágmarka skaðsemi skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. 

Af hverju er ráðlagt að byrja skimun við 23 ára aldur og hætta við 64 ára aldur?

Samkvæmt Evrópskum skimunarleiðbeiningum er enginn einn réttur aldur til hefja eða hætta skimun. Skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis ráðleggja að skimun hefjist við 23 ára aldur og hætti á aldursbilinu 60-64 ára vegna þess að þá eru mestar líkur á að hámarka gagnsemi og lágmarka skaðsemi skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. 

Hvernig er eftirlit vegna frumubreytinga?

Eftirlit vegna frumubreytinga er í samræmi við skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis. Eftirlitið er mismunandi eftir aldri og eðli frumubreytinga. 
Niðurstöður eru skráðar í skimunarskrá Embættis landlæknis og er það hlutverk Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana að bjóða konu í eftirlit í samræmi skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis.  

Leghálsspeglun

Ef niðurstöður frumusýnis eru þannig að þörf sé á leghálsspeglun til betra mats og sýnatöku er send beiðni frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana til Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri. Í kjölfarið fær kona tíma í speglun.

Læknir sem framkvæmir leghálsspeglun ber ábyrgð á að upplýsa konuna og gera áætlun fyrir framhaldið. 
Eftir leghálsspeglun og vefjasýnatöku er tekin ákvörðun um hvort konan haldi áfram í hefðbundinni skimun, hvort endurtaka þurfi leghálsspeglun eða að gera þurfi keiluskurð á leghálsinum til að fjarlægja frumubreytingarnar.

Hvernig er eftirlit eftir keiluskurð?

Eftirlit eftir keiluskurð er í samræmi við skimunarleiðbeiningar landlæknis. Eftirlitið er mismunandi eftir því hvort keiluskurðurinn var fullnægjandi (e. radical) eða ófullnægjandi (e. non-radical). Nánari upplýsingar um eftirlitið má nálgast á heimsíðu Embættis landlæknis. 

Með tilkomu skimunarleiðbeininga Embættis landlæknis er eftirlitið mikið breytt og í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar, vísindalega þekkingu og gagnreynda læknisfræði.
Læknir sem framkvæmir keiluskurð ber ábyrgð á að upplýsa konuna og gera áætlun fyrir framhaldið. Niðurstaðan er skráð í skimunarskrá Embætti landlæknis og er það hlutverk Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana að bjóða konu í eftirlit í samræmi við skráða niðurstöðu í skimunarskrá. 

Af hverju eru hefðbundin frumurannsókn framkvæmd í Danmörku?

Heilsugæslan hefði kosið að rannsóknir á sýnum úr skimun fyrir leghálskrabbameini færu fram hér á landi og kannaði  þann möguleika með forsvarsaðilum viðkomandi rannsóknarstofa 

Af hverju er HPV rannsókn framkvæmd í Danmörku?

Engin vandkvæði hefðu verið hjá Landspítala að framkvæma HPV rannsóknir í nýju öflugu tæki en miðað við afkastagetu hefði það tekið innan við fjóra daga á ári að HPV rannsaka öll leghálssýni sem tekin eru árlega hér á landi. 

Heilsugæslan hafði frumkvæði að því að kanna hvort hægt væri að gera HPV rannsóknir á Landspítala og eiga samstarf við stærri erlendar rannsóknarstofur um að framkvæma hefðbundnar frumurannsóknir. Erlendu rannsóknarstofurnar höfðu ekki áhuga á því. Helstu skýringar voru að frumurannsóknir eingöngu féllu illa að þeirra rannsóknarferlum.

Hvaða gæðaviðmið gilda um rannsóknir á hefðbundnum frumurannsóknum?  

Við innleiðingu HPV frumskimunar 1. janúar 2021 hér á landi er reiknað með að hefðbundnum frumurannsóknum fækki úr um 27.000 í um 7.000 á ári. 

Samkvæmt evrópskum gæðaviðmiðum:

  • Skal rannsóknarstofa sem rannsakar hefðbundin leghálsfrumusýni rannsaka að lágmarki yfir 15.000 sýni árlega. 
  • Skal hver frumurannsakandi (e. cytotechnologist) rannsaka að lágmarki 3.000 og að hámarki 7.500 sýni árlega. 
  • Skal hver frumumeinafræðingur (læknir) rannsaka að lágmarki 750 sýni árlega.

Samkvæmt dönskum gæðaviðmiðum: 

Skal rannsóknarstofa sem rannsakar hefðbundin leghálsfrumusýni rannsaka að lágmarki yfir 25.000 sýni árlega. 

Hér á landi gilda skimunarleiðbeiningar Embætti landlæknis sem byggðar eru á dönskum skimunarleiðbeiningum en þar skal rannsóknarstofa sem rannsakar hefðbundin leghálsfrumusýni rannsaka að lágmarki yfir 25.000 sýni árlega. Erfitt ef ekki ómögulegt er að uppfylla þetta gæðaviðmið hér á landi vegna þess að fjöldi frumurannsókna er langt undir lágmarksfjölda miðað við dönsk gæðaviðmið og uppfylla þannig ákvæði skimunarleiðbeininga Embættis landlæknis.  

Hvað tapast mörg störf vegna þess að rannsóknir eru framkvæmdar í Danmörku?

Áætlað er að það tapist ígildi rúmlega eins starfs á ársgrundvelli hér á landi vegna þess að rannsóknir á sýnum vegna skimunar fyrir leghálskrabbameini eru framkvæmdar í Danmörku.

Það tapast ígildi 2% starfsmanns vegna vinnu við HPV rannsóknartækið í þá 4 daga sem tekur að HPV rannsaka öll leghálssýni á Íslandi árlega.

Það tapast eitt starf sérhæfðs frumurannsakanda miðað við að leghálssýni verði ekki fleiri en 7.500 á ári.

Það tapast um 20% stöðugildi sérhæfðs frumumeinafræðings miðað við að hann hefur starfað í 70% stöðugildi við rannsóknir á um 27.000 leghálsfrumusýnum árlega. Áætlað er að þau verði um 7.000 árlega eftir að HPV frumskimun hefur verið að fullu innleidd.   

Tapast sérþekking vegna þess að rannsóknir eru framkvæmdar í Danmörku?

Það gæti tapast sérþekking þeirra þriggja sérhæfðu frumurannsakenda sem unnið hafa á þessu sviði undanfarin ár og eru undir lífeyrisaldri. Nýliðun sérhæfðra frumurannsakenda er vaxandi alþjóðlegt vandamál vegna þess að aðrar rannsóknaraðferðir munu líklega koma í stað hefðbundna leghálsfrumurannsókna á næstu árum.  

Það gæti tapast sérþekking eina sérhæfða frumumeinafræðingsins (læknir) sem hefur starfað á þessu sviði undanfarin ár. Það er hins vegar ákveðin ógn við sjálfbærni, öryggi og gæði starfseminnar að hér er á landi hefur aðeins einn sérhæfður frumumeinafræðingur sinnt þessari starfsemi. Þyrfti að senda sýnin erlendis ef hann forfallast? Hvernig er gæðaeftirliti háttað, þarf læknirinn að endurskoða eigið mat á sýnum og þannig hafa eftirlit með sjálfum eða þyrfti að senda sýnin erlendis til rannsókna?