Staða leghálsskimunar - Vika 24

Mynd af frétt Staða leghálsskimunar - Vika 24
15.06.2021

Staðan í þessari viku

Áfram gengur vel að senda sýni til Hvidovre sjúkrahússins og samstarfið gengur mjög vel. 

Þátttaka í skimun

Þótt árangur af skimun byggist á mörgum þáttum þá er þátttaka sá lang mikilvægasti.    

Þátttaka (3,5 ár) í skimun fyrir krabbameini í leghálsi hér á landi hefur farið minnkandi sl. 30 ár eins og sést á mynd 1. Viðmið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um þátttöku segir að æskilegt sé að hún sé yfir 80% og viðunandi ef hún er yfir 70%. 

Mynd: Þátttaka (3,5 ár) í skimun fyrir leghálskrabbameini 1964-2018
 
Það er von heilbrigðisyfirvalda að þær veigamiklu breytingar sem gerðar voru um síðustu áramót eins og aukið aðgengi að skimun og lækkaður kostnaður (500 kr.) við skimun fyrir krabbameini í leghálsi megi verða til þess þátttaka kvenna aukist og markmiðum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um þátttöku verði náð. 

Í dag er hægt að panta tíma í skimun fyrir krabbameini í leghálsi hjá ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi rafrænt á Heilsuvera.is á þeirri heilsugæslustöð sem viðkomandi er skráður eða í síma á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Unnið er að því að tímapöntun í skimun fyrir brjóstakrabbameini verði rafræn síðar á árinu. 

Framtíðarsýn aðila sem koma að skimun er m.a. að allar konur fái boð um skimun alfarið með rafrænum hætti líkt og fólk fær í dag boð um bólusetningu gegn COVD-19. Gefinn yrði ákveðinn dagsetning og tími sem hægt væri að breyta á sérstakri vefsíðu ef uppgefinn tími hentar ekki.   

Í næsta pistli verður rætt um þróun nýgengis og dánartíðni krabbameins í leghálsi