Bólusetning gegn mislingum er sterk vörn

Mynd af frétt Bólusetning gegn mislingum er sterk vörn
15.03.2019

Mislingar er mjög smitandi veirusjúkdómur sem einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Alla jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 1% þeirra sem sýkjast fær alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu og það getur jafnvel valdið dauða.

Mislingar voru algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. Eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Þrátt fyrir að bóluefni við mislingum sé bæði öruggt og ódýrt drógu mislingar yfir 110.000 manns til dauða í heiminum árið 2017, að stærstum hluta börn yngri en fimm ára. Árið 2000 fengu um það bil 72% barna í heiminum bólusetningu við mislingum við eins árs aldur en árið 2017 var hlutfallið komið í 85%. 

Smitleiðir og meðgöngutími 

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (til dæmis hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið. Einstaklingur sem smitast af mislingum getur smitað aðra 6 dögum eftir að hann smitast og í allt að 21 dag frá því hann smitast. Einstaklingur sem hefur hugsanlega smitast af mislingum þarf því að vera í sóttkví á þessum tíma.

Ef einhver er í hættu á að smitast eftir návígi við veikan einstakling er möguleiki á að koma í veg fyrir sjúkdóminn, eða gera sjúkdóminn vægari, ef bólusetning fer fram innan 72 klukkustunda frá mögulegu smiti.

Einkenni sjúkdómsins

Einkenni mislinga koma fram um 10-12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum það er hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Alvarlegir sjúkdómar eins og eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og einnig heilabólga geta verið afleiðing mislinga.

Alvarlegar heilaskemmdir af völdum mislinga geta einnig komið fram mörgum mánuðum eftir sýkinguna.

Hringja á heilsugæsluna

Einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum, rétt er að hafa samband við heilsugæsluna til að fá ráðgjöf og staðfestingu á að um mislinga sé að ræða. Ekki er ráðlagt að koma á heilsugæsluna, heldur hringja á viðkomandi heilsugæslustöð eða í símann 1700 sem er alltaf opinn.

Engin sérstök lyf eru til við mislingum. Hitalækkandi lyf geta hjálpað sjúklingnum að líða betur. Mikilvægt að tryggja hvíld, vökvainntöku og næringu. Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum, þó getur verið nauðsynlegt að meðhöndla sýkingar sem eru afleiðingar af sjálfum sjúkdómnum með sýklalyfjum.

Halda sjúkdómi frá landinu

Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Börn eru bólusett 18 mánaða og rétt er að fara varlega í ferðalög með óbólusett börn til landa þar sem hætta er á smiti. 

En hvernig veit fólk hvort það hefur fengið bólusetningu. Þeir sem eru fæddir eftir 1975 eru líklegast bólusettir nema foreldrar þeirra hafi hafnað bólusetningu. Allir fengu bólusetningarskírteini sem oft eru til í fórum foreldra þeirra. Ef bólusetning er skráð í kringum 12 ára aldur er það líklegast mislingabólusetning.

Hægt er að sjá bólusetningar sem gefnar voru eftir að farið var að skrá bólusetningar í rafrænan bólusetningagrunn, um það bil í kringum árið 2000, inn á mínum síðum á heilsuvera.is eða á island.is

Getið þið athugað hvort ég hafi fengið bólusetningu við mislingum? Og hvort ég sé með eina eða tvær bólusetningar? Þetta eru algengustu spurningarnar sem berast til heilsugæslunnar þessa dagana og stutta svarið er nei. Eldri bólusetningaskrár eru ekki aðgengilegar á heilsugæslustöðvum þar sem þær eru í geymslum og skjalasöfnum. Einnig er dýrt og seinlegt að mæla mótefni. Þess skal getið að fólk með eina bólusetningu er varið í 93% tilfella en fólk með tvær bólusetningar er varið í 97% tilfella.

Allir eru velkomnir í bólusetningu á heilsugæslustöð. Þeir sem sérstaklega er höfðað til:

  •  Öll börn á aldrinum 6 mánaða-18 mánaða.
  •  Óbólusettir fullorðnir einstaklingar fæddir 1970 og síðar.
  •  Þeir sem eiga ekki bólusetningakort, minnast hvorki mislinga né bólusetninga í æsku og eru fæddir 1970 eða síðar.

Það er skaðlaust að fá bólusetningu aftur og það er einfaldasta, ódýrasta og öruggasta leiðin. Ekki má bólusetja þungaðar konur og fólk á líftæknilyfjum.

Ávallt velkomið að hringja á þína heilsugæslustöð – eða símann 1700 – eða netspjall og fyrirspurnir á heilsuvera.is

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Sigríður Dóra Magnúsdóttir, settur framkvæmdastjóri lækninga

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu