ADHD teymi fyrir fullorðna

Mynd af frétt ADHD teymi fyrir fullorðna
08.10.2021

Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að veita Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sérstakt fjármagn til að stofna ADHD (athyglisbrestur með/án ofvirkni) teymi fyrir fullorðna á landsvísu. Mikill uppsafnaður vandi hefur skapast síðustu ár og langir biðlistar eftir þjónustu. 

Teymið mun bjóða greiningu og meðferð fyrir einstaklinga 18 ára og eldri. Greiningarferli getur verið flókið og þörf á þverfaglegri nálgun, því mun því  starfa í annarri línu geðþjónustu. Undirbúningur að húsnæði og ráðningu á starfsfólki er í fullum gangi. HH mun vinna ötullega að því að gera ferlið sem skilvirkast og greiðast.

Teymið mun starfa á landsvísu. Stefnt er að því að starfsemin hefjist 1. febrúar 2022 og verður teymið staðsett á Skúlagötu 21, 101 Reykjavík.

„Þetta er spennandi verkefni og gott að geta bætt þjónustuna fyrir þennan hóp“, segir Guðlaug U. Þorsteinsdóttir framkvæmdastóri geðheilbrigðisþjónustu hjá HH.

Frétt síðast uppfærð 13. október.