„Við sjáum að biðlistarnir eru að minnka milli ára, sem er auðvitað mjög jákvæð þróun,“ segir Íris Dögg Harðardóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við erum í miðri á í þessari vinnu og ætlum okkur að gera enn betur. Markmiðið er að aðgengi að þjónustunni sé gott og að það sé ekki biðtími eftir þjónustu vegna geðheilbrigðisvanda.“
Biðlisti fullorðinna eftir sálfræðiþjónustu á öllum 15 heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins styttist verulega á undanförnum tólf mánuðum. Í lok árs 2025 biðu 325 fullorðnir eftir þjónustu, samanborið við 517 á sama tíma árið áður. Biðlistinn hafði því styst um 37 prósent milli ára.
Minna hefur fækkað á biðlista barna eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Alls biðu 222 börn í lok árs 2025, en 233 í lok árs 2024. Fækkað hefur um tæp fimm prósent á biðlistanum milli ára. Það skýrist meðal annars af því að fleiri úrræði hafa verið fyrir fullorðna en börn hingað til.
Bið eftir þjónustu hefur styst
Biðtíminn eftir þjónustu er misjafn milli stöðva en hefur dregist saman milli ára. Í dag er biðtími bæði fullorðinna og barna að meðaltali 114 dagar. Í byrjun janúar 2025 var biðtími barna að meðaltali 184 dagar og biðtími fullorðinna 288 dagar.
„Okkur hefur gengið vel að ná biðtímanum niður og stefnum á að gera enn betur,“ segir Íris. „Það er talsverður munur milli stöðva, á sumum stöðvum er biðin eftir þjónustu lítil sem engin en einhverjir mánuðir á öðrum stöðvum. Málin sem okkar sálfræðingar eru að sinna eru gríðarlega fjölbreytt en oft eru þetta þung mál sem taka eðlilega sinn tíma. Við forgangsröðum málum eftir alvarleika í þessari þjónustu eins og í heilbrigðiskerfinu almennt.“
Lærum af hinum Norðurlöndunum
Í þeirri vinnu sem verið hefur í gangi undanfarið, og haldið verður áfram á árinu, er horft til fordæma frá hinum Norðurlöndunum. „Þar horfum við til þess að skipuleggja þjónustuna með öðrum hætti, bæta við lágþröskuldaúrræðum og mæta vandanum á fyrri stigum. Við viljum læra af því sem hefur gengið vel á nágrannalöndunum og skoða hvernig má aðlaga það að okkar starfsemi segir Íris.
Áherslan hefur verið á að fjölga úrræðum, til dæmis með auknu framboði á ýmiskonar námskeiðum. Nýjasta viðbótin í námskeiðsflóruna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er netmeðferð fyrir foreldra barna með kvíða, sem hefur farið mjög vel af stað.
