Ánægja með þjónustu og viðmót starfsfólks

Mynd af frétt Ánægja með þjónustu og viðmót starfsfólks
24.11.2025

Mikil ánægja er með þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og nær allir sem notuðu þjónustuna síðustu mánuði voru ánægðir með viðmót starfsfólks. Þetta kemur fram í niðurstöðum þjónustukönnunar ríkisstofnana.

Allir sem koma á heilsugæslustöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og til Geðheilsumiðstöðvar barna fá SMS eftir heimsóknina með hlekk á könnun þar sem spurt er um upplifunina. Könnunin er hluti af þjónustukönnun ríkisstofnana og er framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Þegar fólk sem notaði þjónustu heilsugæslustöðva eða Geðheilsumiðstöðvar barna síðustu mánuði var spurt um þjónustuna sögðu um 88 prósent að hún hafi verið mjög eða frekar góð. Aðeins um sex prósent sögðu að þjónustan hafi verið mjög eða frekar slæm.

 


Viðmót starfsfólks til fyrirmyndar

Enn meiri ánægða er með viðmót starfsfólksins. Þannig sögðu 94 prósent að viðmótið hafi verið mjög eða frekar gott. Aðeins þrjú prósent sögðu viðmótið hafa verið mjög eða frekar slæmt.

„Við erum auðvitað bæði stolt og ánægð með þessar niðurstöður. Starfsfólkið okkar leggur mikið á sig til að veita skjólstæðingum sem besta þjónustu og það er virkilega gott að sjá að sú vinna er að skila sér,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.


Tímaframboð áskorun

Í könnuninn er spurt hversu hratt eða hægt fólki fannst þjónustan ganga fyrir sig. Þar sögðust um 78 prósent að þjónustan hafi gengið mjög eða frekar hratt, en um 13 prósent að hún hafi gengið mjög eða frekar hægt. 

„Ein helsta áskorun heilsugæslunnar er framboð á tímum, sérstaklega hjá heimilislæknum. Árum saman hefur gengið erfiðlega að manna lausar stöður lækna á heilsugæslustöðvum alstaðar á landinu. Það hefur auðvitað haft áhrif á tímaframboð og bið eftir þjónustu. Við erum trúlega að sjá merki um það í þessum svörum,“ segir Sigríður Dóra.

 


Forflokkun verkefna lykilatriði

„Við höfum undanfarið ár eða svo forflokkað öll brýn erindi í gegnum Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fólk er farið að þekkja það fyrirkomulag vel. Það hefur einfaldlega samband í síma 1700 eða í gegnum netspjallið á Heilsuveru. Þar metur hjúkrunarfræðingur erindið og bókar tíma ef þörf er fyrir það. Í mörgum tilvikum dugir að veita upplýsingar og góð ráð og þar með hægt að spara fólki óþarfa ferð á heilsugæsluna,“ segir Sigríður Dóra.

Nú eru sífellt fleiri heilsugæslustöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins einnig farnar að forflokka erindi sem ekki eru bráð. Það er gert af reynslumiklum hjúkrunarfræðingum á hverri stöð. 

„Þetta verklag hefur reynst vel á þeim stöðvum sem hafa farið þessa leið. Með því að fá upplýsingar um erindið þegar óskað er eftir tíma er hægt að tryggja að fólk sem þarf að komast að fljótlega fái tíma sem hentar. Við viljum nýta sem best fagþekkingu allra okkar heilbrigðisstétta. Sum erindi krefjast klárlega aðkomu læknis en oft eru erindin þannig að það er betra fyrir skjólstæðinginn að tala við hjúkrunarfræðing, sálfræðing, félagsráðgjafa eða sjúkraþjálfara. Með þessu verklagi getum við vísað þeim beint á réttan fagaðila,“ segir Sigríður Dóra.

Hægt er að kynna sér niðurstöður þjónustukönnunar ríkisstofnana betur á vef fjármálaráðuneytisins.