Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins stofnað

Mynd af frétt Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins stofnað
18.11.2025
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, undirritaði nýverið stofnsamning fyrir Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins. Með stofnun ráðsins er stigið mikilvægt skref í átt að samstilltu átaki sveitarfélaga og ríkisstofnana um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Farsældarráðið verður vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins festir í sessi markvisst samtal og aukna samvinnu milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga. Markmið ráðsins er að efla og samræma þjónustu við börn á höfuðborgarsvæðinu með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun.

„Mikilvægum áfanga var náð í dag þegar Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins var stofnað, hið fimmta á landsvísu. Farsældarráðið hjúpar helsta þéttbýliskjarna landsins og færumst við skrefi nær í að veita börnum samþætta þjónustu án hindrana um allt land,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, þegar stofnsamningurinn var undirritaður.

Aðilar að ráðinu eru sveitarfélögin sex – Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes – en sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í þjónustu við börn þar sem þau bera ábyrgð á skólaþjónustu, leik- og frístundastarfi, félagsþjónustu og barnavernd. Auk sveitarfélaganna eiga aðild að ráðinu Heilsugæslan höfuðborgarsvæðisins, lögreglan, framhaldsskólarnir og íþróttahreyfingin.

Samvinna tengt farsæld

Ráðið mun forgangsraða aðgerðum og móta fjögurra ára aðgerðaáætlun sem allir aðilar samþykkja. Aðgerðirnar byggja á samvinnu þjónustuveitenda og tengjast öllum helstu þáttum farsældar; menntun, heilsu og vellíðan, félagslegri stöðu og lífsgæðum, öryggi og vernd, þátttöku og félagslegum tengslum. Sérstök áhersla verður lögð á snemmtæka íhlutun og samfélagslegar forvarnir.

Nánar er fjallað um undirritunina í frétt á vef Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.