Alma D. Möller heilbrigðisráðherra ákvað að flytja teymið í kjölfar sameiginlegrar greiningarvinnu stjórnenda og fagfólks HH og Landspítalans. Niðurstaða greiningarvinnunnar var að rík fagleg rök mæli með tilfærslunni. Þar vegi þungt samlegðaráhrif við þjónustu Réttar- og öryggisgeðdeildar spítalans og einfaldari þjónustuferlar fyrir fanga.
Þessi breyting fellur að markmiðum um að efla aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu við viðkvæma hópa og tryggja samfellda, samþætta og faglega þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Undirbúningur að yfirfærslunni er þegar hafinn og er gert ráð fyrir að Geðheilsuteymi fangelsa verði að fullu tekið til starfa á Landspítala 1. maí 2026.
Sérhæfðu geðheilsuteymi fyrir fanga var komið á fót innan HH árið 2020, ætlað til að efla geðþjónustu innan fangelsa. Með stofnun teymisins var jafnframt brugðist við athugasemdum nefndar Evrópuráðsins (CPT-nefndarinnar) um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og ábendingum hennar um úrbætur.
Mikilvægt skref til að bæta þjónustuna
Haft er eftir Ölmu í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins að stofnun geðheilsuteymis til að sinna föngum hafi verið stórt skref til úrbóta fyrir þennan viðkvæma hóp. „Ákvörðunin um að flytja teymið til Landspítala er annað mikilvægt skref til að bæta þjónustuna enn frekar og stuðla að samfelldri þjónustu við notendur sem skiptir miklu máli. Undanfarna mánuði hefur verið ráðist í mörg fleiri verkefni sem miða að þessu sama. Settar voru á laggirnar bakvaktir hjúkrunarfræðinga á Hólmsheiði, þjónustuviðmið geðheilsuteymisins voru endurskoðuð með hliðsjón af bestu starfsháttum og eins hefur ráðuneytið styrkt jafningastuðning innan fangelsa til að ná betur til hópsins og greiða fyrir aðgengi að heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu.“
Fjallað er nánar um flutning teymisins á vef heilbrigðisráðuneytisins.
