Fjöllyfjameðferð er algeng og vaxandi meðal eldri einstaklinga. Annar hver skjólstæðingur heilsugæslunnar 75 ára og eldri fær fimm lyf eða fleiri og sjötti hver tíu lyf eða fleiri. Tengsl eru á milli fjöllyfjameðferðar og aukaverkana eins og vitrænnar skerðingar, færnisskerðingar, aukins hrumleika, bylta og aukinnar dánartíðni. Þetta er rakið í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Betri líðan og minni einkenni
Í greininni er tekið dæmi um eldri konu sem notaði talsverðan fjölda lyfja. Hún upplifði ýmis einkenni sem mögulega gátu verið aukaverkanir af lyfjanotkun. Þegar kominn var tími á endurnýjun lyfja í skömmtun ákvað læknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ástæða væri til að meta lyfjanotkun konunnar nánar og óskaði eftir því að klínískur lyfjafræðingur framkvæmdi endurskoðun.
Þannig komu hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni ásamt klínískum lyfjafræðingi að rýni á einkenni og lyfjanotkun konunnar, auk þess sem gerðar voru blóð- og þvagrannsóknir. Í kjölfarið var ákveðið að hætta notkun fimm lyfja. Einnig var lyfjaformi breytt í tveimur tilfellum og skammtur lækkaður í einu. Eitt lyf bættist við sem hafði jákvæð áhrif á svefn og matarlyst. Við endurkomu á heilsugæslu þremur mánuðum síðar leið konunni betur og hún upplifði minni einkenni sem mögulega gátu verið aukaverkanir lyfja.
Undirstrikar mikilvægið
Í greininni er þetta dæmi sagt undirstrika mikilvægi þess að rýna lyfjameðferð, meðal annars með tilliti til aukaverkana. „Þverfagleg nálgun er þar lykilatriði svo og aðkoma aðstandenda við lyfjabreytingar og eftirfylgni með þeim, einkum þegar skjólstæðingur er með vitræna skerðingu og/eða hrumur,“ segir í grein Læknablaðsins.
„Markviss lyfjarýni getur greint hættur sem fylgja fjöllyfjameðferð og er nauðsynlegt að flétta reglubundna lyfjarýni inn í eftirfylgd langvinnra sjúkdóma,“ segir þar jafnframt.
Greinina í heild má finna á vef Læknablaðsins.