Þar undirritaði Íris Dögg Harðardóttir, framkvæmdastjóri Geðheilbrigðisþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, samstarfsyfirlýsingu ásamt fulltrúum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjarðarbæjar og framhaldskóla í Hafnarfirði. Markmiðið er að auka samvinnu til að stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu í bæjarfélaginu og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi.
Bæjarstjóri sagði í upphafi vinnustofunnar að farsæld barns verði ekki tryggð af einni stofnun, heldur af fólki sem tali saman, deilir upplýsingum og bregðist við snemma. „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og hér í Hafnarfirði ætlum við að tryggja að þorpið okkar sé samstillt, vakandi og geisli af hlýju og öryggi,“ sagði hann. „Við vitum að börn í viðkvæmri stöðu eru þau sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu eða eru sjálf komin í aðstæður þar sem þau þurfa stuðning okkar allra. Það er skylda okkar að bregðast við.“
Taka þarf snemma á málum
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ritaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd embættisins: „Samvinna skiptir öllu máli fyrir börn í viðkvæmri stöðu svo mál séu leyst á sem farsælastan hátt,“ segir hún. Mikilvægt sé að taka snemma á málum og hafa stuttar boðleiðir.
Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs og forvarna Hafnarfjarðarbæjar, segir vinnustofur sem þessar mikilvægar til að þétta raðirnar svo baklandið við börn í viðkvæmri stöðu sé traust og sterkt. Settir hafi verið saman tengiliðalistar og verklagið kortlagt. „Þessi dagur gefur okkur svo tækifæri til að hlusta á alla sem vinna með börnum og sjá hvort við getum gert enn betur. Við viljum vera samfélag sem grípur börn í viðkvæmri stöðu og gerum það best þegar við vinnum þétt saman,“ segir Stella.