Í nýju kerfi er litið til þess hvað fólk getur í stað þess að einblína á hvað það getur ekki. Nýtt kerfi var kynnt á fundi í Grósku í morgun.
„Nýja kerfið einfaldar verulega líf skjólstæðinga heilsugæslunnar. Ótti fólks um að detta á milli í kerfinu hefur verið áþreifanlegur en nú vinna þjónustuaðilar markvisst saman í gegnum samhæfingarteymi og mynda net utan um þau sem þess þurfa,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sérfræðingar stofnunarinnar komu að undirbúningi þessara viðamiklu breytinga ásamt fjölmörgum öðrum.
Einfaldara kerfi
Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka, dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði kjósi það svo.
Stuðningur er aukinn við fólk í endurhæfingu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.
Greiðslur hækka hjá flestum
Um 95 prósent þeirra sem hafa verið með örorkulífeyri fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Fólk sem lækkar er með háar lífeyrissjóðstekjur á mánuði og þeir sem verða með sömu greiðslur eru þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingakerfinu.
„Nýtt kerfi er betra, manneskjulegra og sanngjarnara,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Við tökum núna betur utan um fólkið okkar og þann mannauð sem í því býr. Aukningin til öryrkja eru 18.000 milljónir króna á ári sem eru mestu kjarabætur sem þessi hópur hefur fengið í áratugi. Ég þekki af eigin raun hversu óréttlátt og flókið gamla kerfið var og er afar stolt á þessum tímamótum.“
Nánar er fjallað um breytingarnar á vef félags- og húsnæðismálaráðuneytisins.