Tvö af hverjum þremur börnum sem greindust einhverf voru einnig með ADHD samkvæmt niðurstöðum nýrrar íslenskrar rannsóknar sem birtist í læknisfræðitímaritinu The Lancet Child & Adolescent Health.
Rannsóknin er ein sú yfirgripsmesta hingað til þar sem könnuð var andleg heilsa íslenskra barna og unglinga á aldrinum 7 til 18 ára sem voru einhverf, með ADHD eða bæði en voru án þroskahömlunar.
Rannsóknin byggir á gögnum frá yfir 2.000 börnum og unglingum sem fengu greiningu á taugaþroskafjölbreytileika í gegnum klínískt greiningarferli á Þroska- og hegðunarstöð, sem nú er Geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar fór fram ítarlegt mat af hálfu sérfræðinga á taugaþroskafjölbreytileika og geðrænum áskorunum, ásamt mati foreldra og kennara á tilfinninga- og hegðunarerfiðleikum.
Rannsóknin er samstarfsverkefni Kristínar Rósar Sigurðardóttur, sálfræðings á Geðheilsumiðstöð barna og Dagmarar Kristínar Hannesardóttur, barnasálfræðings á miðstöðinni og lektors við Sálfræðideild Háskóla Íslands, Berglindar Hauksdóttur, sálfræðings hjá Barna- og fjölskyldustofu, Thomas Ollendick, prófessors í Virginia Tech, Katrínar Davíðsdóttur, barnalæknis hjá Geðheilsumiðstöð barna og Þórhildar Halldórsdóttur, dósents við Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Um 4,5 prósent greind með ADHD
Um það bil 1,5 prósent barna og unglinga án þroskahömlunar á aldrinum 7 til 18 ára voru greind einhverf og 4,5 prósent með ADHD. Af þeim sem voru einhverf reyndust um tvö af hverju þremur einnig með ADHD. Það undirstrikar hversu algengt það er að þessi taugafjölbreytni fari saman og hve mikilvægt er að veita hópnum viðeigandi stuðning.
Kvíði og kækjaraskanir voru algengari meðal barna og unglinga sem greind voru einhverf, með ADHD eða greind með bæði einhverfu og ADHD. Tíðni annarra geðrænna áskorana, svo sem þunglyndis og áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD), reyndist svipuð hjá öllum hópum.
Mat á tilfinninga- og hegðunarerfiðleikum sýndi að tilfinningalegir erfiðleikar voru algengari meðal einhverfra barna og unglinga, með eða án ADHD. Hegðunarerfiðleikar voru algengari meðal þeirra sem voru með ADHD, bæði þeirra sem einnig voru einhverf og þeirra sem voru það ekki.
Skýrari sýn á þarfir barna og unglinga
Flestar fyrri rannsóknir voru gerðar meðal einhverfra barna með og án þroskahömlunar eða notuðust við ónákvæmt greiningarferli. Í þessari rannsókn var í fyrsta sinn notast við staðlað, ítarlegt greiningarferli í þýðisúrtaki á landsvísu. Það veitir skýrari sýn á heilsufarslegar þarfir barna og unglinga sem eru með greiningar á taugaþroskafjölbreytileika án þroskahömlunar.
Rannsóknin fyllir einnig mikilvægt skarð í fyrri þekkingu. Fram til ársins 2013 gátu einhverfa og ADHD ekki farið saman samkvæmt greiningarkerfum, sem þýðir að mörg börn og unglingar með báðar birtingamyndir hafa mögulega verið vangreind eða ekki fengið viðeigandi stuðning. Með því að skoða bæði sameiginleg og sértæka eiginleika í líðan hjá þessum hópum er lagður grunnur að einstaklingsmiðaðri nálgun í skóla, heilbrigðisþjónustu og samfélagsstuðningi.
Greinin birtist í læknisfræðitímaritinu The Lancet Child & Adolescent Health og er opin öllum.