Varði doktorsritgerð í hjúkrunarfræði um heimaþjónustu

Mynd af frétt Varði doktorsritgerð í hjúkrunarfræði um heimaþjónustu
28.04.2025
Inga Valgerður Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, varði nýverið doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni fjallaði Inga um umönnunarþarfir í heimaþjónustu og þá þætti sem spá fyrir um flutning á hjúkrunarheimili og umönnunarbyrði aðstandenda.

Mikil áhersla hefur verið á það undanfarin ár að eldra fólk geti búið sem lengst á eigin heimilum og fái þá þjónustu sem þarf þar. Í doktorsverkefni Ingu voru heilsufar, færni og aðstæður skjólstæðinga í heimaþjónustu, 65 ára og eldri, metnar auk umönnunarbyrði aðstandenda. Þá var einnig greint hvaða þættir hjá skjólstæðingi spáðu fyrir um umönnunarbyrði aðstandenda og flutning skjólstæðinga á hjúkrunarheimili. 

Markmiðið var að greina hvernig þróa megi heimaþjónustu til að bregðast betur við þörfum þessa hóps og styðja við þau markmið að fólk geti búið sem lengst á eigin heimilum.

Betri heilsa en meira álag á aðstandendur

Niðurstaða rannsóknar Ingu, þar sem notast var við upplýsingar frá Íslandi og fimm öðrum Evrópuríkjum, sýnir að heilsu og færni skjólstæðinga hefur hnignað frá fyrri rannsóknum og formleg þjónusta aukist á sama tíma. Í ljós kom að eldra fólk á Íslandi sem nýtur heimaþjónustu var með betri færni og heilsufar en skjólstæðingar í hinum löndunum. Þá kom einnig í ljós að mun fleiri aðstandendur fundu fyrir umönnunarbyrði á Íslandi en í hinum löndunum og reyndist hún einnig sterkasti forspárþáttur fyrir flutning á hjúkrunarheimili. 

Niðurstöður rannsóknarinnar reyndust ólíkar á milli landanna sem undirstrikar mikilvægi þess að þjónusta sé sniðin að einstaklingsbundnum þörfum. Jafnframt benda þær til þess að mikilvægt sé að aðstandendum sé veittur markviss stuðningur til að þeir geti áfram stutt sína nánustu til búsetu á eigin heimili.

Lesa má nánar um doktorsvörnina á vef Háskóla Íslands.