Þjónustan efld og stefnt á nýtt og betra húsnæði

Mynd af frétt Þjónustan efld og stefnt á nýtt og betra húsnæði
28.02.2024
Þjónusta við skjólstæðinga Heilsugæslunnar Garðabæ verður efld á næstu vikum þegar nýtt verklag með forflokkun og ráðgjöf í síma og netspjalli verður tekið upp á stöðinni. Þá stefnir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins á að flytja stöðina sem fyrst í nýtt og betra húsnæði til að geta stóreflt þjónustu við Garðbæinga.

Eins og Garðbæingar þekkja hefur skortur á læknum á Heilsugæslunni Garðabæ dregið úr framboði á tímum og þannig lengt bið eftir ýmissi þjónustu sem ekki telst bráð. Skortur á læknum einskorðast ekki við þessa heilsugæslustöð heldur er það gegnumgangandi vandamál á öllum heilsugæslustöðvum.

Heilsugæslan hefur brugðist við þessu vandamáli með ýmsum hætti. Einn liður í því er ráðgjöf og forflokkun erinda í gegnum síma 1700 eða netspjall Heilsuveru. Þá fær fólk með bráð erindi ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingum í sófanum heima og fær tíma samdægurs eða daginn eftir ef þörf krefur. Stefnt er að því að taka þetta verklag upp á Heilsugæslunni Garðabæ nú á vormánuðum. Það hefur sýnt sig að talsverðum hluta erinda er hægt að sinna með faglegri ráðgjöf í gegnum síma eða netspjall svo nýja verklagið getur bæði sparað skjólstæðingum sporin og tryggt að tími heilbrigðisstarfsfólks nýtist sem best.

Vilja nýtt húsnæði sem fyrst

Stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins leggja mikla áherslu á að Heilsugæslan Garðabæ flytji sem fyrst í nýtt og betra húsnæði þar sem verður hægt að bjóða bæði skjólstæðingum og starfsfólki upp á fyrsta flokks aðstöðu. Þarfagreining fyrir nýja stöð er í vinnslu og verður verkefninu hraðað eins og kostur er.

Viðræður við heilbrigðisráðuneytið og bæjaryfirvöld í Garðabæ um framtíðarheilsugæslu í bænum standa yfir en ljóst að það mun taka tíma að komast að niðurstöðu, finna eða byggja húsnæði og innrétta það fyrir heilsugæslu. Því hefur verið ákveðið að ráðast í umtalsverðar aðgerðir til að endurnýja núverandi húsnæði heilsugæslustöðvarinnar. Við þá vinnu verður gætt að því að sem minnst rask verði fyrir skjólstæðinga stöðvarinnar.