Tilraunaverkefni með að flokka bráð erindi fyrir komu

Mynd af frétt Tilraunaverkefni með að flokka bráð erindi fyrir komu
21.12.2023
Heilsugæslan Mjódd mun um áramót hefja tilraunaverkefni þar sem bráð erindi verða forflokkuð í gegnum síma eða netspjall á Heilsuveru áður en komið er á heilsugæslustöðina.

Markmiðið er að bæta þjónustu og tryggja að þau sem eru í bráðustu þörfinni fyrir þjónustu komist að sem fyrst. Fólk með mjög bráð erindi eins og brjóstverk, andþyngsli eða ofnæmi, eða fólk sem lent hefur í slysi og þarf tafarlausa aðstoð getur eftir sem áður komið beint á heilsugæslustöðina.

Tilraunaverkefnið hefst í byrjun árs 2024 og er unnið í samstarfi við Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sérþjálfað starfsfólk ásamt hjúkrunarfræðingum svarar erindum sem berast í síma 1700 og í gegnum netspjallið á Heilsuveru. Þar fær fólk ráðgjöf og aðstoð við tímabókun áður en komið er á stöðina. Hægt er að nota þýðingarvélar á netspjallinu til að eiga í samskiptum á öðrum tungumálum en íslensku.

Forflokkunin mun draga úr bið sjúklinga eftir þjónustu. Þá fær starfsfólk stöðvarinnar upplýsingar um erindið áður en skjólstæðingurinn kemur sem gerir heimsóknina markvissari.